Jose Reina
Spánverjinn Jose Reina lék frábærlega á sinni fyrstu leiktíð í ensku knattspyrnunni. Hann gerði sér til dæmis lítið fyrir og hélt marki Liverpool hreinu í ellefu leiki í röð og setti félagsmet. Leik eftir leik hélt hann hreinu. Margir töldu að hann væri nú ekkert svo rosalega góður því vörn Liverpool væri svo sterk. En Spánverjinn sýndi að hann var mjög einbeittur og varði oft á mikilvægum augnablikum í leikjum sem hann hafði annars kannski lítið að gera í. Þetta var til dæmis eitt af einkennum hins magnaða Ray Clemence og þótti greina hann frá öðrum góðum markvörðum. Þótt Jose eigi langt í land með að ná stalli Ray Clemence þá tleja margir stuðningsmenn Liverpool að hann geti skipað sér í flokk með bestu markvörðum í sögu Liverpool.
Jose byrjaði leiktíðina kannski ekki mjög sannfærandi og sparkspekingar efuðust um þann vísdóm að drífa Spánverjann til Englands til að bola hetjunni frá Konstantínópel úr marki Liverpool. Rafael var harðákveðinn í að Jose væri betri markvörður en Jerzy Dudek og Pólverjinn var settur til hliðar sumum stuðningsmönnum Liverpool til gremju. En eftir því sem mánuðirnir liðu þá jókst álit stuðningsmanna Liverpool á Jose Reina. Ellefu leikir í röð án þess að hann þyrfti að sækja boltann í mark kom honum svo í annála Liverpool og það fyrir jól! Þegar deildarkeppninni lauk sagði það sýna sögu að liðið hafði aflað 82 stiga sem var það mesta í áraraðir. Liverpool skoraði ekki svo ýkja mikið af mörkum og þau töldust 57. En ein aðalástæðan fyrir stigafjöldanum var sú að Liverpool fékk aðeins 25 mörk á sig. Allt í allt hélt Jose markinu hreinu í 30 leikjum af þeim 53 sem hann lék á sinni fyrstu leiktíð. Sú staðreynd segir sína sögu.
Jose komst í aftur í annála Liverpool í síðasta leiknum á leiktíðinni. Fyrir úrslitaleikinn í F.A. bikarnum við West Ham United áttu nú ekki margir von á því að Jose myndi þurfa að sækja boltann oft í markið. En Spánverjinn átti, að sínu eign áliti, einn slakasta leik sinn á leiktíðinni. Hann átti sök á öðru marki Hamranna og margir vildu líka kenna honum um þriðja mark þeirra. En Jose sýndi sinn rétta andlit þegar hann varði ótrúlega skalla frá Nigel Reo-Coker fyrirliða West Ham á lokamínútu framlengingarinnar. Hann kom því Liverpool í framlengingu og þar varði hann þrjár af fjórum vítaspyrnum West Ham. Það sem meira var hann varði þessar þrjár vítaspyrnur af miklu öryggi. Leikmenn Liverpool hlupu til Jose til að þakka honum sigurinn en Jose var ekki ánægður með sína framgöngu. ,,Ég var mjög óánægður með hvernig ég lék í 90 mínútur. Ef satt skal segja þá gat ég ekki neitt. En svona gengur það. Knattspyrnan er bara svona. Við eigum allir okkar slæmu daga en það er ekki nokkur vafi að þetta var mjög slæmur dagur. En maður verður að halda sínu striki, reyna að bæta sig og gleyma mistökum sínum. Mér finnst eiginlega að ég hafi ekki verðskuldað þetta því ég lék ekki eins og ég best get og þetta var erfiður dagur fyrir mig. Vítaspyrnukeppni er alltaf happdrætti og lánið var með mér í þetta sinn. Maður verður að vera undirbúin undir slíkt og við æfum vítaspyrnur mikið. Ég ákvað hvert ég ætlaði að skutla mér í hverri spyrnu. Maður verður að ákveða hvert maður ætlar að skutla sér og halda sig við þá ákvörðun."
Það fór því svo að Jose endaði leiktíðina eins og Jerzy Dudek gerði fyrir ári í Istanbúl í síðasta leik þeirrar leiktíðar. Hann, líkt og Jerzy, tryggði Liverpool titil eftir ævintýralegan úrslitaleik með því að verða hetja liðsins í vítaspyrnukeppni. Hetjudáð Jerzy dugði honum ekki til að halda sæti sínu í aðalliði Liverpool þegar ný leiktíð hófst. En það má mikið vera ef Jose Reina verður ekki aðalmarkvörður Liverpool á næstu leiktíð og fleirum til!
Sf. Gutt.