)

Mohamed Sissoko

Mohamed Sissoko fór hamförum gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn og það var létt verk að velja besta mann vallarins eftir leikinn. Kannski var það kraftaverk að hann gat spilað þennan leik. Að minnsta kosti var það ekki sjálfgefið eftir hin alvarlegu meiðsli sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð.

Mohamed hafði gengið mjög vel á leiktíðinni og leikið mun meira en flestir reiknuðu með þar til ógæfan dundi yfir. Hann var borinn af leikvelli gegn Benfica í Lissabon í febrúar meiddur á auga eftir að einn leikmanna Benfica hafði óvart sparkað í andlit hans. Fyrstu dagana á eftir var óttast að hann yndi jafnvel missa sjón á öðru auganu. Miðað við þær áhyggjur var lítið hugsað út í það að þar með yrði knattspyrnuferill hans líklega á enda. Reyndar hafi Momo sjálfur miklar áhyggjur af því að hann þyrfti að hætta að leika knattspyrnu. En hann var staðráðinn í því að reyna að komast aftur til leiks. Réttum mánuði eftir að hann var borinn af velli í Lissabon var hann í byrjunarliði Liverpool sem átti að leika á útivelli við Birmingham City í F.A. bikarnum. Momo kom til leiks búinn sérstökum hlífðargleraugum. Eftir aðeins tvær mínútur var hann búinn að leggja upp mark fyrir Sami Hyypia með því að skalla boltann til hans. Það var ekki að sjá að hann væri smeykur um að augun yrðu fyrir hnjaski. Ekki leið á löngu þar til hann var búinn að taka gleraugun af sér og koma þeim á varamannabekkinn. Mohamed var einn besti leimaður Liverpool í leiknum. Stuðningsmenn Liverpool höfðu varla við að telja mörkin og Liverpool vann metsigur 7:0. Stuðningsmenn Liverpool jafnt og leikmenn fögnuðu þessum stórsigri, sem kom Liverpool í undanúrslit F.A. bikarsins, vel en líklega var enginn glaðari en Mohamed Sissoko. Þetta kalda kvöld í Birmingham fékk sönnur á því að hann gæti leikið knattspyrnu á nýjan leik. Mohamed lék flesta leiki Liverpool til loka leiktíðarinnar og stóð sig mjög vel. Hann endaði svo leiktíðina með því að verða bikarmeistari og hann var einn besti maður Liverpool þegar liðið lagði West Ham United að velli í mögnuðum úrslitaleik.  

Mohamed var í byrjunarliði Liverpool gegn Maccabi Haifa í fyrsta leik leiktíðarinnar. Liverpool vann 2:1 og Momo var einn besti maður Liverpool í leiknum. En framganga hans gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn sló allt út. Hann fór hamförum á köflum og hinir sterku miðjumenn Chelsea réðu ekkert við hann. Liverpool vann sætan sigur 2:1 og Mohamed bætti við verðlaunasafn sitt. Það var ekki nóg með að hann fengi verðlaunapening fyrir sigur í leiknum. Hann var líka útnefndur Maður leiksins. Það er ekki oft sem Rafael Benítez hælir einstökum leikmönnum sínum en það gerði hann eftir sigurinn á Chelsea. ,,Mér fannst Momo Sissoko vera besti maðurinn á vellinum og hann var frábær. Hann hélt boltanum og spilaði honum vel. Momo hefur reynst okkur vera góður leikmaður. Þegar ég keypti Momo var það vegna þess að við þurftum meiri kraft á miðjuna. Hann veitir okkur það og hann spilar alltaf betur og betur." Mohamed var líka ánægður eftir leikinn. ,,Ég var ánægður með framgöngu mína en allir leikmennirnir léku vel. Mér gengur enn betur þegar allt liðið leikur vel. Það var gaman að vera valinn Maður leiksins í leik sem við unnum titil í. Þegar stuðningsmennirnir syngja nafnið mitt þá langar mig til að leika alltaf vel fyrir þá. Ég veit ekki af hverju þeim líkar svona vel við mig. Kannski líkar enskum áhorfendum að horfa á leikmenn sem finnst skemmtilegt að vinna boltann í návígjum og leggja hart að sér." Líklega hittir strákurinn frá Malí þarna naglann á höfuðið.

Rafael Benítez vissi allt um Mohamed enda var hann undir vernadarvæng hans hjá Valencia. Líklega naga forráðamenn Everton sig í handarbökin að Rafa skyldi frétta að Mohamed var á lausu síðasta sumar. Mohamed átti líka auðvelt val þegar hann vissi að fyrrum lærimeistari hans vildi fá hann til liðs við Evrópumeistarana. Liverpool fékk einn efnilegasta miðjumann í heimi en Everton missti af miklu.

Liverpool hefur þrjá frábæra menn á miðjunni. Hvaða lið myndi ekki vilja hafa þá Steven Gerrard, Xabi Alonso og Mohamed Sissoko til taks? Víst er að Mohamed á mikið eftir ólært og hann veit það sjálfur. ,,Ég tel ekki að ég sé eins góður og Steven Gerrard. Ég fer alltaf á æfingu með það í huga að reyna að læra af þeim Stevie og Xabi Alonso. Þeir eru frábærir miðjumenn. Ég er ennþá bara 21. árs gamall og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Kannski verð ég, einn góðan veðurdag, talinn álíka góður og þeir." Haldi Momo áfram að taka álíka framförum og hann hefur gert síðasta árið hjá Liverpool má búast við því að hann verði talinn með bestu miðjumönnum heims eftir nokkur ár. 

Sf. Gutt.



TIL BAKA