)

Steven Gerrard MBE

Steven Gerrard fékk nú um áramótin MBE orðuna frá Elísabetu annarri Bretadrottningu. Þá viðurkenningu átti hann svo sannarlega skilið að fá eftir frábæra frammistöðu með Liverpool síðustu árin. Það sem af er þessarar aldar er Steven Gerrard búinn að vera lykilmaður í liði Liverpool. Þar fyrir utan er hann búinn að vera einn besti leikmaður enska landsliðsins á síðustu árum.

Það verður að segjast að árið 2006 var Steven Gerrard gjöfult. Hann tók við F.A. bikarnum í Cardiff í vor eftir hafa sýnt stórfenglega framgöngu gegn West Ham United í úrslitaleiknum. Hann skorað tvö stórkostleg mörk í leiknum og svo skoraði hann líka í vítaspyrnukeppninni. Liverpool vann F.A. bikarinn í sjöunda sinn og Steven tók við bikarnum eftir leikinn. Úrslitaleikurinn hefur síðar verið kallaður "Gerrard úrslitaleikurinn" og þrátt fyrir að mörgum þætti þar fulldjúpt í árina tekið þá verður úrslitaleiknum í F.A. bikarnum 2006 alltaf minnst fyrir framgöngu Steven Gerrard. Steven tók svo við Samfélagsskildinum með félaga sínum Jamie Carragher í ágúst eftir að Bikarmeistararnir lögðu Englandsmeistarana að velli.

Steven tók þátt í sinni fyrstu Heimsmeistarakeppni á liðnu sumri. Enska landsliðið stóð ekki undir væntingum í Þýskalandi. Að minnsta kosti ekki undir þeim væntingum sem gerðar voru til liðsins á Englandi! Steven var samt einn besti maður enska liðsins og skoraði tvö mörk í keppninni. Keppnin endaði reyndar ekki vel fyrir Steven því honum mistókst að skora í vítaspyrnukeppninni gegn Portúgal og enska liðið féll úr leik.

Steven Gerrard sýndi stórgóða frammistöðu á síðustu leiktíð. Hann lék mjög vel og varð markahæsti leikmaður Liverpool með 23 mörk. Miðjumaður hefur ekki skorað fleiri mörk fyrir Liverpool í háa herrans tíð. Það var líka mjög verðskuldað þegar hann var kjörinn Knattspyrnumaður ársins 2006 af Samtökum atvinnuknattspyrnumanna undir vorið. Steven er búinn að leika vel á þessari leiktíð þótt honum finnst hann geta enn betur. Mark hans á nýársdag í 3:0 sigri á Bolton var 70. markið sem hann skorar fyrir Liverpool. Aðeins Robbie Fowler hefur skorað fleiri mörk fyrir félagið af núverandi leikmönnum þess.

 

Lesendur Liverpool.is hafa valið Steven Gerrard Mann ársins 2006! Það val þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Þetta urðu niðurstöður valsins.

Steven Gerrard 39,28 %

Peter Crouch 33,63 %

Jamie Carragher 9,55 %

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 5,65 %

Rafael Benítez 5,29 %

Jose Reina 4,14 %

David Moores 1,44 %

Rick Parry 1,02 %

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 1665

Steven setur markið hátt og það er ætlast til mikils af honum. Það verður ekki nein breyting á þeim væntingum sem til hans verða gerðar á komandi ári hvað þá á komandi árum. MBE orðan er enn ein staðfesting þess í hversu miklum metum Steven Gerrard er. Hann hefur þó ekki ofmetnast við allar þær vegtyllur sem honum hafa fallið í skaut. Orð hans þegar hann fékk að vita af orðuveitingunni bera vott um það. "Ég er alveg í skýjunum. Mér finnst það mikill heiður að fá þessa viðurkenningu fyrir að taka þátt í íþrótt sem ég hef elskað allt mitt líf. Ég veiti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd allra þeirra sem hafa stutt mig svo vel á öllum ferli mínum, öllum liðsfélögum mínum sem hafa spilað með mér í gegnum árin, öllum hjá Liverpool Football Club, öllum hjá enska landsliðinu, allri fjölskyldu minni og vinum og öllum þjálfurunum sem hafa hjálpað mér frá því ég var átta ára."

Sf. Gutt.


TIL BAKA