Jose Reina
Jose hefur sýnt það og sannað, frá því hann kom til Liverpool, að hann er frábær markvörður. Það tók hann reyndar nokkurn tíma að finna sig í ensku knattspyrnunni á síðustu leiktíð. Fyrrnefnt félagsmet var sett fyrir jólin og Jose endaði svo leiktíðina á að vera hetja Liverpool í vítaspyrnukeppninni gegn West Ham United í úrslitaleik F.A. bikarnum. Hann varði þá þrjár vítaspyrnur og tryggði Liverpool þar með sjöunda bikarmeistaratitil félagsins. Jose varð Skjaldarhafi með Liverpool þegar liðið lagði Chelsea að velli 2:1 en þegar deildarkeppnin hófst gekk verr og þá sérstaklega í útileikjunum. Þar gekk bara alls ekki að halda markinu hreinu fyrr en komið var fram í nóvember. Í lok október lokaði Jose reyndar markinu á Anfield Road og þar fékk hann ekki mark á sig fyrr en í mars. Það segir líka sína sögu um góða frammistöðu Jose Reina að frá því Liverpool tapaði 3:0 fyrir Arsenal í Lundúnum þann 12. nóvember að þá fékk hann aðeins tvö mörk á sig út janúar!
Jose náði reyndar sínu þriðja félagsmeti fyrr á leiktíðinni og það á hann einn og sjálfur. Enginn markvörður í sögu Liverpool hefur haldið marki sínu oftar hreinu í sínum fyrstu fimmtíu deildarleikjum. Í þeim leikjum hélt Jose markinu hreinu tuttugu og átta sinnum. Þeir Ray Clemence, Bruce Grobbelaar og Jerzy Dudek náðu að halda hreinu í tuttugu og fimm leikjum. Sannarlega magnað afrek hjá þessum hægláta Spánverja!
Sf. Gutt.