)

Jose Reina

Liverpool setti nýtt félagsmet á dögunum þegar liðið lék sinn níunda leik á heimavelli í röð án þess að fá á sig mark. Jerzy Dudek varði markið í leiknum þegar metið var innsiglað með 4:0 sigri á Sheffield United. Jose Reina lék hins vegar átta af leikjunum og náði þar með þriðja félagsmeti sínu eftir að hann kom til Liverpool. Flestir muna að Liverpool lék ellefu leiki án þess að fá mark á sig á síðustu leiktíð. Það félagsmet þótti magnað og hið nýja var ekki síður merkilegt. Þó svo að Jose Reina sé ekki einn í ráðum í öftustu varnarlínu Liverpool þá gegnir hann þó lykilhlutverki.

Jose hefur sýnt það og sannað, frá því hann kom til Liverpool, að hann er frábær markvörður. Það tók hann reyndar nokkurn tíma að finna sig í ensku knattspyrnunni á síðustu leiktíð. Fyrrnefnt félagsmet var sett fyrir jólin og Jose endaði svo leiktíðina á að vera hetja Liverpool í vítaspyrnukeppninni gegn West Ham United í úrslitaleik F.A. bikarnum. Hann varði þá þrjár vítaspyrnur og tryggði Liverpool þar með sjöunda bikarmeistaratitil félagsins. Jose varð Skjaldarhafi með Liverpool þegar liðið lagði Chelsea að velli 2:1 en þegar deildarkeppnin hófst gekk verr og þá sérstaklega í útileikjunum. Þar gekk bara alls ekki að halda markinu hreinu fyrr en komið var fram í nóvember. Í lok október lokaði Jose reyndar markinu á Anfield Road og þar fékk hann ekki mark á sig fyrr en í mars. Það segir líka sína sögu um góða frammistöðu Jose Reina að frá því Liverpool tapaði 3:0 fyrir Arsenal í Lundúnum þann 12. nóvember að þá fékk hann aðeins tvö mörk á sig út janúar! 

Jose náði reyndar sínu þriðja félagsmeti fyrr á leiktíðinni og það á hann einn og sjálfur. Enginn markvörður í sögu Liverpool hefur haldið marki sínu oftar hreinu í sínum fyrstu fimmtíu deildarleikjum. Í þeim leikjum hélt Jose markinu hreinu tuttugu og átta sinnum. Þeir Ray Clemence, Bruce Grobbelaar og Jerzy Dudek náðu að halda hreinu í tuttugu og fimm leikjum. Sannarlega magnað afrek hjá þessum hægláta Spánverja!

Sf. Gutt.

TIL BAKA