Jamie Carragher
Nú við lok leiktíðar er það álit flestra að Jamie Carragher hafi verið besti leikmaður Liverpool á leiktíðinni. Útkoma í flestum kosningum um framgöngu leikmanna hljóðar upp á það að Carra hafi verið besti leikmaður Liverpool. Sem dæmi þá völdu lesendur Liverpool.is Jamie besta leikmann Liverpool og hlaut hann 26,98 % atkvæða. Reyndar verður Carra oft fyrir valinu í ýmsum kosningum vegna vinsælda sinna en þær einar og sér segja ekki alla söguna. Jamie stóð sig einfaldlega frábærlega á leiktíðinni.
Leiktíðin gat reyndar ekki byrjað mikið betur hjá Jamie en hann leiddi Liverpool, sem fyrirliði, til 2:1 sigurs gegn Chelsea í Skjaldarleiknum í ágúst. Jamie tók við Skildinum eftir leikinn með Steven Gerrard sem kom inn sem varamaður í leiknum. Eftir þessa frábæru byrjun hallaði undan fæti fyrir Jamie. Hann meiddist í fyrsta deildarleiknum gegn Sheffield United. Hann mætti aftur til leiks gegn Everton en hann var greinilega ekki orðinn góður af meiðslunum. Jamie átti langt frá því góðan leik og Everton vann 3:0. Jamie náði sér smá saman á strik og líkt og undanfarin ár var hann máttarstólpi í vörn Liverpool. Hann lék gríðarlega vel í undanúrslitarimmunum gegn Chelsea í Meistaradeildinni þegar Liverpool tryggði sér farseðilinn til Aþenu. Liverpool mátti þó þola tap í Aþenu fyrir AC Milan.
Jamie leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir leikinn. "Við erum niðurbrotnir en vonandi mun tapið herða okkur þannig að við komum sterkari til leiks á næstu leiktíð. Þó það sé erfitt að tapa úrslitaleik þá verðum við um leið að sætta okkur við það og hrósa AC Milan sem hefur frábæru liði á að skipa." Jamie hefur lengi verið þekktur fyrir mikla hreinskilni og það var ekki nein breyting þar á eftir leikinn í Aþenu. "Í hreinskilni sagt þá vorum við ekki nógu góðir. Það þýðir ekkert að vera með neinar afsakanir. Milan átti svona um það bil skilið að vinna. Það man enginn eftir liðinu sem lenti í öðru sæti. Við vitum að við gerðum ekki nóg til að vinna. Ég ætla ekki að kvarta yfir atriðum sem féllu ekki með okkur. Eftir stendur að við náðum ekki að klára verkefnið. Núna verðum við að rífa okkur upp og reyna aftur á næstu leiktíð."
Þetta var eftirminnileg leiktíð fyrir Jamie. Hann lék 51 leik og skoraði meira að segja eitt mark. Hann nálgast nú óðum sinn 500. leik með Liverpool. Í lok leiktíðar telst hann hafa leikið 468 leiki og hafa aðeins fimmtán leikmenn í sögu félagsins leikið fleiri leiki. Nú í janúar voru tíu ár liðin frá því Jamie lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool og í tilefni þess tilkynntu forráðamenn Liverpool að hann væri búinn að vinna sér inn ágóðaleik. Nú fyrr í þessum mánuði framlengdi Jamie svo samning sinn við Liverpool. Hann segist vilja enda feril sinn hjá Liverpool og stuðningsmenn Liverpool hefðu sannarlega ekkert á móti því!
Sf. Gutt.