Jose Reina
Jose Reina setti nýtt félagsmet í leiknum við Aston Villa. Enginn markmaður í sögu félagsins hefur verið fljótari að halda markinu hreinu 100 sinnum.
Jose hélt marki sínu hreinu í þegar Liverpool burstaði Aston Villa 5:0 og var það í 100. sinn sem hann gerði það. Leikurinn gegn Villa var 197. leikur Jose með Liverpool. Goðsögnin Ray Clemence átti gamla metið en hann náði 100 sinnum hreinu í 200 leikjum. Nú er Jose búinn að ná þessu meti og er það frábær árangur hjá þessum magnaða markverði.
Í leiknum gegn Aston Villa sýndi Jose sínar bestu hliðar. Hann varði tvívegis mjög vel þegar Liverpool var með 1:0 forystu og kom þar með í veg fyrir að Villa næði að jafna. Þetta gerði Ray Clemence svo oft á ferli sínum hjá Liverpool og þótti einbeiting hans með fádæmum því oft var ekki mikið að gera hjá honum í markinu. Jose hefur oft sýnt að þessum kosti er hann líka búinn og hann hefur oft komið sér vel.
Jose hefur slegið hvert metið á fætur öðrum frá því hann kom til Liverpool sumarið 2005. Enginn markvörður í sögu Liverpool hefur haldið marki sínu oftar hreinu í sínum fyrstu fimmtíu deildarleikjum. Í þeim leikjum hélt Jose markinu hreinu tuttugu og átta sinnum. Þeir Ray Clemence, Bruce Grobbelaar og Jerzy Dudek náðu að halda hreinu í tuttugu og fimm leikjum. Hann stóð svo í marki Liverpool á leiktíðinni 2005/06 þegar Liverpool setti félagsmet með því leika ellefu leiki í röð án þess að fá á sig mark. Á þeirri sömu leiktíð hélt Jose markinu hreinu í átta leikjum í röð á Anfield Road og hafði enginn afrekað það áður. Það má því segja að Jose hafi strax á sinni fyrstu leiktíð unnið sér inn traust stuðningsmanna Liverpool sem ekki þekktu mikið til Spánverjans þegar hann kom frá Villarreal.
Síðustu þrjú keppnistímabil hefur Jose unnið Gullhanskann en þá viðurkenningu fær sá markmaður í Úrvalsdeildinni sem oftast heldur marki sínu hreinu. Það er því ekki að undra að Rafael Benítez hæli landa sínum. "Það má segja að hann sé sókndjarfur í leikstíl sínum því hann er alltaf að reyna að hefja hraðar sóknir. Þetta er mikilvægur kostur hjá markmanni. Hann ver líka oft frábærlega og er jafnan rólegur á þegar mest ríður á. Mér finnst hann mjög góður markmaður sem býr yfir öllum þeim kostum sem markmaður þarf að hafa."
Eins og Rafael Benítez nefndi þá er Jose alltaf vakandi fyrir því að hefja sóknir Liverpool eftir að hann er búinn að ná boltanum á sitt vald. Þetta kom vel í ljós í metleiknum gegn Aston Villa en þá lagði Jose upp mark annan leikinn í röð. Langt útspark hans rataði beint á Albert Riera sem hamraði boltann í markið Aston Villa. Jose átti stoðsendingu, í næsta leik á undan á Old Trafford, en útspark hans fór þá beint á Andrea Dossena sem skoraði síðasta markið í stórsigri Liverpool 4:1. Á síðustu leiktíð lagði hann upp eitt mark fyrir Fernando Torres. Jose er því ekki bara í því að halda markinu sínu hreinu!
Faðir Jose Miguel Reina, sem þótti mjög góður markvörður og lék með Atletico Madrid, getur því sannarlega verið stoltur af syni sínum. Ekki er gott að segja hvor þeirra feðga er betri en Jose er nú þegar búinn að skrá nafn sitt í annála Liverpool og ekki er ólíklegt að hann eigi eftir að bæta afrekskrá sína enn frekar hjá félaginu.
Sf. Gutt.