)

Jose Reina

Lesendur Liverpool.is hafa kveðið upp dóm sinn. Samkvæmt áliti þeirra þá er Jose Reina Maður ársins 2009 hjá Liverpool. Þá krýningu á þessi magnaði Spánverji sannarlega skilið.

Valið kemur kannski svolítið á óvart enda eru menn eins og Steven Gerrard og Fernando Torres jafnan meira í sviðsljósinu en markmaðurinn Jose Reina. Það er þó engum blöðum um það að fletta að Jose, eða Pepe eins og hann er kallaður, er markmaður í hæsta gæðaflokki og hann er alger lykilmaður í liði Liverpool.

Ekki vann Jose til neinna verðlauna á síðasta ári og ekki náði hann markmannsstöðunni hjá Spánverjum. En mikilvægi hans hefur þó jafnvel farið vaxandi hjá Liverpool. Margir telja hann besta markmanninn í Úrvalsdeildinni og líklega taka flestir stuðningsmenn Liverpool undir það álit. Vörn Liverpool hefur verið sterk síðustu árin þótt hún hafi sýnt ákveðinn veikleikamerki á þessu keppnistímabili. Styrkur varnarinnar veldur því að Jose er kannski ekki mikið í sviðsljósinu og þá vegna aðgerðarleysis. Svo þegar hann þarf eitthvað að gera þá eru kannski ekki mikil tilþrif í gangi. Slíkt er þó mikið til vegna þess að Jose býr yfir miklum leikskilningi og staðsetningar hans eru frábærar. Einmitt þetta atriði segir jafnan til um hversu markmaður er góður.  

Rafael Benítez og leikmenn Liverpool vita alveg hversu frábær markmaður Jose Reina er. Jose er líka mikill félagsmaður og hefur það vel komið í ljós þegar hann hefur ætt fram eftir öllum velli til að fagna mikilvægum mörkum með félögum sínum. Það myndi ekki koma á óvart ef Jose Reina gerði nýjan samning við Liverpool því honum virðist líka mjög vel hjá félaginu. Við skulum vona að sú samningagerð gangi fljótt og vel því Jose Reina er einn besti markmaður í heimi!

Jose Reina 32%

Steven Gerrard 23%
 
Fernando Torres 20%

Rafael Benítez 8%
 
Christian Purslow 8%

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 5%
 
Jamie Carragher 5%
 

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 890.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2008 - Fernando Torres.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2007 - Steven Gerrard. 

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez.

Sf. Gutt.

TIL BAKA