)

Joe Fagan

Joe hóf störf á Anfield Road, sem þjálfari varaliðsins árið 1958, einu ári áður en Bill Shankly kom til félagsins. Árið 1966 var Joe gerður að þjálfara aðalliðsins og varð þar með hægri hönd Bill Shankly. Árið 1983 tók Fagan við af Bob Paisley þegar meistarinn settist í helgan stein og allt gekk gjörsamlega upp fyrir nýja framkvæmdastjórann á fyrra tímabilinu sínu. Liverpool vann titilinn þriðja árið í röð og deildarbikarinn vannst fjórða árið í röð. Stærsta stund á stuttum framkvæmdastjóraferli Fagan beið handan við hornið. Liverpool vann úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða gegn AS Roma á þeirra eigin heimavelli. Joe var kosinn framkvæmdastjóri ársins og ritaði jafnframt nafn sitt í sögubækur er hann varð fyrsti framkvæmdastjóri á Englandi til að vinna þrjá stórtitla á sömu leiktíðinni.

Það var ljóst að erfitt yrði eins og jafnan þegar allt gengur upp að fylgja þessu afreki eftir og ekki bætti úr skák að fyrirliðinn Graeme Souness var búinn að yfirgefa Anfield fyrir Sampdoria og skildi eftir sig stórt skarð. Fagan styrkti liðið með kaupum á Paul Walsh, Jan Molby, Jim Beglin, Gary Gillespie, Kevin McDonald og John Wark. Liverpool lenti í öðru sæti í deildinni en nágrannarnir Everton unnu titillinn með yfirburðum. Þegar Fagan var ráðinn sem framkvæmdastjóri sagði hann stjórnarmönnum Liverpool að hann vildi starfið bara í tvö tímabil vegna þess að hann vildi ekki lifa við pressuna sem fylgdi þessu starfi til langframa: "Maður getur ekki látið álagið hverfa sem maður er undir þegar maður vaknar á morgnana. Ég hef fylgst með Harry Catterick, Bill Shankly og Bob Paisley lifa undir þessari pressu". Evrópumeistararnir komust aftur í úrslit Evrópukeppninnar og hafði Fagan ákveðið að þetta yrði sinn síðasti leikur við stjórnvölinn. Glæstum ferli hans hjá Liverpool lauk hins vegar ekki á þeim nótum sem hann hafði hugsað sér heldur á einum versta degi í sögu félagsins. Fótboltabullur rústuðu úrslitaleiknum á Heyselleikvanginum.

Joe Fagan gat samt litið sáttur tilbaka á feril sinn hjá Liverpool: "Ég mun ætíð telja mig hafa notið ákveðinna forréttinda að hafa verið framkvæmdastjóri Liverpool. Þeir hræðilegu atburðir sem áttu sér stað daginn er ég hætti störfum varpa ekki skugga á þá staðreynd því að ég minnist svo margra gleðistunda sem fótboltinn og mín langa dvöl hjá Liverpool hefur veitt mér".

TIL BAKA