Phil Thompson
Sumir og nefnum við engin nöfn í því sambandi hafa leitt hugann að því að það væri hið besta mál greinilega að Houllier sé að baki liðinu og Thompson stjórni frá hliðarlínunni því að frammistaða liðsins hefur batnað síðan Houllier vék úr stjórasætinu. "Gerum Thompson að stjóra liðsins til frambúðar." Það er af og frá eins og mikill meirihluti gerir sér grein fyrir. Þetta er lið Houllier samt sem áður og tekur ekki neinum stakkaskiptum þó að Thompson stjórni liðinu tímabundið. Thompson er hluti af liðinu sem HOULLIER byggði og hann gerir sér vel grein fyrir því sjálfur eins og ætla mætti. Hann heldur uppi merki Houllier.
En svo aftur á móti á Thompson allt hrós skilið fyrir að leiða liðið í gegnum þessa erfiðleika. Það getur ekki hver sem er stjórnað liðinu á svona ögurstundu og kom auðvitað aldrei til greina að ráða einhvern utanaðkomandi til verksins. Það kom aðeins einn til greina og það er hægri hönd Houllier.
"King" Kenny Dalglish orðaði þetta best hér um daginn: "Ég veit allt um mannkosti og hæfileika Phil Thompson því ég var framkvæmdastjóri þegar Phil var ráðinn til félagsins sem þjálfari varaliðsins. Það var engin tilviljun að við réðum hann til starfa. Hann er tryggur félaginu og kann sitt fag. Þessir kostir hans hafa komið vel í ljós frá því hann tók við stjórn liðsins í forföllum Gerard Houllier. Ég efaðist aldrei um að Phil myndi standa sig vel. Phil var búinn að starfa með Gerard í þrjú ár og hann þekkir vel hugsanagang Frakkans í sambandi við val á liðinu og leikaðferðum. Phil hefur sýnt að hann kann vel til verka og getur tekið réttar ákvarðanir í hita leiksins."
Við tökum undir orð Paul Tomkins hins snjalla penna á Shankly Gates-síðunni og hvetjum Pinocchio (sem Thompson er svo ástúðlega kallaður af aðdáendum andstæðinga Liverpool) að standa upp og hneigja sig því að hann á svo sannarlega allt gott skilið.
Fréttaritarar liverpool.is hafa setið að tesopa með Phil og vita hvers konar mann hann hefur að geyma. Hann er mikill húmoristi og sannkallað eðalmenni þarna á ferð. En það er líkt og með Houllier að hann heimtar mikla vinnu af leikmönnunum og bregst ókvæða við, stundum yfirdrifið nóg að mati Houllier ef menn eru ekki að standa sig. Thompson hefur verið lýst sem vondu löggunni á móti Houllier sem á að vera góða löggan. Það gætti helst efasemda er Thompson tók við að samband hans við suma leikmenn væri of stirt og þetta myndi ekki ganga upp. En það hlýtur að vera erfitt að vera reiður við Thompson mjög lengi. Tommo er klassanáungi.