Richie Patridge
Þessi 22 ára vinstri kantmaður hefur sýnt snilldartakta síðan hann fór til Coventry og lék sinn fyrsta leik 28. september. Hann er kominn með 12 leiki og 2 mörk og átt fjölda stoðsendinga. Varnarmenn hafa gjörsamlega verið ráðþrota gagnvart honum en á annan dag jóla kom að hápunktinum. Hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi sínum, þrír varnarmenn til varnar. Hann fór upp á sitt einsdæmi, lék á þá alla saman og skaut eftir uþb 50 metra hlaup af vítateigslínu í skeytin. Fréttamenn SKY Sports voru um þetta leyti að velja bestu mörk úrvalsdeildarinnar síðan hún var stofnuð og þeir höfðu á orði að þetta mark myndi sóma sér vel þar á meðal.
Vissulega er þetta 1. deildin en ekki úrvalsdeild og því erfitt að segja hvernig hann myndi spjara sig á meðal þeirra bestu en ýmis teikn eru vissulega á lofti að hann gæti slegið í gegn hjá Liverpool. Það er á allra vitorði að Houllier hrífst ekki af leikmönnum sem sverja sig í ætt við goðsagnir eins og John Barnes og æða upp kanta og dirfast að leggja upp mörk þaðan. Richie hlýtur að hafa gert Houllier til geðs að sýna fram á að hann gæti skorað með því að taka strikið upp miðjan völlinn og skora þannig. Hraði piltsins og leikni sem greinarhöfundur hefur orðið vitni af í síðustu leikjum Coventry ber af og það væru STÓR mistök að selja hann í lok leiktíðar. Coventry hefur þegar sýnt áhuga á að kaupa hann en Richie vill fremur stefna á úrvalsdeild og maður rétt vonar að Houllier hafi vit á að láta piltinn til sín taka á næstu leiktíð.