)

Emile Heskey

Emile Heskey hefur þaggað niður í mörgum efasemdamönnum í síðustu leikjum. Eftir markaleysi frá því á haustdögum hefur enski landsliðsmaðurinn skorað í þremur deildarleikjum í röð. Tvö af mörkunum hafa verið gulls í gildi. Sigurmark gegn Southampton og síðbúið jöfnunarmark gegn tvöföldum meisturum Arsenal. Um helgina sýndi hann kraft sinn og ákveðni þegar hann stangaði boltann úr lúkum David James og í mark.

Svo merkilegt sem það nú var þá skoraði Emile fyrsta markið af þessum þremur í næsta leik eftir að Ian Rush hóf ráðleggingar sínar til sóknarmanna Liverpool. Á meðan á þrautagöngu Liverpool stóð fengu fáir leikmenn Liverpool meiri gagnrýni en Emile Heskey en nú hefur dæmið snúist við. Hann er búinn að vera með bestu mönnum liðsins frá áramótum og nú kvarta fáir ef nokkrir.

Gerard Houllier hefur ætíð staðið við bakið á Emile. Þó fór hann kringum áramótin fram á það, opinberlega, að sóknarmaðurinn færi að standa undir nafni og skora mörk. Það virðist hafa gengið eftir. "Ég er ánægður með að Emile er farinn að sýna sitt rétta andlit og ég er viss um að hann á eftir að leika enn betur til loka leiktíðar. Hraði hans og kraftur er ógnvænlegur og þegar hann er í þessum ham þá er hann sá besti í Úrvalsdeildinni. Hann átti erfitt uppdráttar framan af leiktíðinni eins og svo margir sem léku á HM í sumar. En ég var þess ætíð fullviss að við myndum sjá annað upplit á Emile Heskey á seinni hluta leiktíðarinnar."

Sá sem þetta skrifar er þess fullviss að Emile á eftir að enda leiktíðina með í kringum 15 mörk. Hann er núna búinn að skora sex sinnum.

TIL BAKA