Harry Kewell
Þegar hér er komið við sögu þá hefur Harry leikið nítján leiki og skorað átta mörk. Að auki hefur hann lagt upp nokkur mörk. Hann hefur ekki leikið eina ákveðna stöðu. Harry hefur skipt á milli kanta, jafnvel í miðjum leikjum, og hann hefur líka komið við í sókninni. Vilji hans og keppnisskap hefur líka fallið í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Liverpool. Það er svo sem ekki að undra að hann skuli leggja sig fram fyrir Liverpool. Hann er að spila fyrir uppáhaldsliðið sitt frá barnæsku. Ekki spillir fyrir að Harry hundsaði nokkur þekkt félög, til dæmis Manchester United, þegar hann valdi Liverpool. Uppskriftin að hetju fyrir The Kop getur ekki verið betri. Svo er hann líka í treyju númer 7!
Gerard Houllier veit manna best að hann hreppti frábæran leikmann. "Harry er leikmaður í hæsta gæðaflokki og hann styrkir liðið á marga vegu. Hann færir liðinu aukna skilvirkni því hann leggur mikið á sig. Reyndar eru vinnuafköst hans með fádæmum. Hann sendir fyrirgjafir fyrir markið og hann skorar mörk. Menn þurfa að hafa mikið til að bera til að geta allt þetta. Hann hefur augljóslega fært liðinu aukinn kraft í sóknarleiknum."
Ekki spillir fyrir að Harry er ánægður hjá draumaliðinu sínu. "Það er erfitt að lýsa því hvernig mér hefur liðið hjá Liverpool. Líklega er fullkomið eina orðið yfir það."
Það má ljóst vera að það skiptir miklu að Harry Kewell haldi áfram að leika vel á þessari leiktíð. Árangur Liverpool getur ráðist, mikið til, af því hvort Harry heldur sínu striki. Það besta af þessu öllu saman er að Harry er aðeins 25 ára gamall. Stuðningsmenn geta því hlakkað til ókominna sparktíða með nýja hetju númer 7!