)

Bruno Cheyrou

Ian Rush, Peter Beardsley, Ray Houghton, Steve McMahon og Bruno Cheyrou. Hvað eiga þessir menn sameiginlegt. Sjáum til. Þann 16. desember 1989 vann Liverpool 5:2 sigur á Stamford Brigde. Í þeim leik skoruðu þeir Ian, Peter, Ray og Steve. Reyndar skoraði Ian Rush tvívegis. Næsti sigur Liverpool á Stamford Bridge kom þann 7. janúar 2004. Bruno Cheyrou skoraði sigurmarkið í þeim leik. Þetta eru sem sagt þeir menn sem hafa skorað fyrir Liverpool í tveimur síðustu sigrum liðsins á Brúnni.

Það verður langt þangað til Bruno verður nefndur í sömu andrá og fjórmenningarnir sem fyrst eru taldir. En markið hans gegn Chelsea kemur honum í sviðsljósið um stundarsakir. Það var kominn tími til! Bruno kom til Liverpool frá Lille í Frakklandi fyrir einu og hálfu ári. Hann kom með mjög gott orð á sér sem sókndjarfur og marksækinn miðjumaður. Leiktíðin 2001/2002 hafði gengið mjög vel hjá honum og hann var kominn í franska landsliðið þar sem hann náði að leika einn landsleik. Hann lék gríðarlega vel með Liverpool á undirbúningstímabilinu fyrir leiktíðina 2002/2003. Stuðningsmenn Liverpool biðu spenntir eftir að fá að njóta snilli þessa snjalla leikmanns. En síðan hefur varla spurst til Bruno.

Þegar hann kom til Liverpool var Bruno nýgiftur og allt var eins og best gat verið. En frá þeim tíma hefur allt gengið honum í mót. Hann skoraði að vísú í 5:0 sigri á Spartak Moskvu í Meistaradeildinni snemma um haustið 2002. En þá eru afrek hans með Liverpool upptalin. Þegar hann fékk tækifæri í aðalliðinu þótti framganga hans daufleg og ekki bættu meiðsli úr skák. Bruno er búinn að vera sérlega óheppinn hvað það varðar. Stuðningsmönnum Liverpool þótti lítt til hans koma og ofan á allt annað þá lék hann venjulega í hvítum skóm!

Á upphafsdegi þessarar leiktíðar var Bruno nokkuð óvænt valinn í byrjunarliðið gegn Chelsea á Anfield Road. Leikurinn var dæmigerður fyrir feril Bruno hjá Liverpool. Hann lét lítt til sín taka og fór meiddur af leikvelli. Það eina sem hefur til hans spurst síðan er að hann hefur af og til sagst ætla að sýna hvað hann geti þegar hann verði leikfær. Það endaði nú með því að hann náði sér af meiðslunum og hann lék síðustu átta mínúturnar gegn Yeovil. Hann var svo öllum að óvörum valinn í byrjunarliðið gegn Chelsea. Þar loksins eftir 31 leik með Liverpool sáu stuðningsmenn Liverpool eitthvað af því sem býr í Bruno Cheyrou.

Bruno á langt í land með að sanna að kaupin á honum hafi verið peningana virði. Hann var einn þremenninganna sem Liverpool keypti sumarið 2002. Senegalarnir tveir og hann hafa oft verið gagnrýndir enda hafa þeir ekki styrkt lið Liverpool eins og til stóð. Gerard Houllier viðurkenndi á aðalfundi Liverpool Football Club, á mánudagskvöldið, að þessir þrír leikmenn hefðu ekki staðið sig sem skyldi.Bruno veit að Gerard hafði rétt fyrir sér á fundinum. "Ég veit hvað framkvæmdastjórinn sagði á fundinum á mánudagskvöldið. En ég held að það sem hann sagði hafi átt rétt á sér. Ég vil bara tala um sjálfan mig ekki hina leikmennina svo þá El Hadji Diouf og Salif Diao sem voru keyptir sumarið 2002. Frá mínum sjónarhóli þá verð ég að vera sammála framkvæmdastjóranum."

Bruno náði að svara fyrir sig gegn Chelsea. Vonandi nær hann að sýna hvað í honum býr til loka leiktíðar. Framganga hans gegn Chelsea bendir til þess að það sé enn líf í honum. Hann er kannski að komast á beinu brautina. Hann er að minnsta kosti hættur að leika í hvítum skóm. Það eitt er skref í rétta átt!

TIL BAKA