Steve Finnan
Í sumar gekk orðrómur þess efnis að Steve væri við það að yfirgefa Liverpool. Voru nokkur félög nefnd til sögunnar um að kaupa hann. En Steve fór hvergi og mörgum að óvörum þá hefur Rafael Benítes haft Steve í byrjunarliðinu í flestum leikjum þessarar leiktíðar. Ekki þó sem hægri bakvörð heldur sem hægri útherja. Þetta helgaðist að hluta til af því að mikill skortur var á mönnum á hægri kantinn. En Steve hefur gert sitt besta í þessari stöðu sem honum er þó ekki fullkomlega eiginleg.
Á laugardaginn skoraði Steve annað mark Liverpool í 3:0 sigri á West Bromwich Albion. Hann tók þá kröftuga rispu inn í vítateig gestanna og skoraði fallegt mark og það með vinstri! Markið var fallegt og ekki spillti fyrir að skora sitt fyrsta mark fyrir framan The Kop. Uppskriftin getur ekki verið betri. Þetta var sannarlega besta stundin á ferli Steve Finnan hjá Liverpool. "Það er frábær tilfinning að skora mitt fyrsta mark og sérstaklega á Anfield. Ég hef gaman af að spila á hægri kanti. Ég er fyrst og fremst bakvörður og þar vil ég spila. En á meðan ég spila er ég ánægður."
Steve kom til Liverpool til að taka þátt í keppni meðal þeirra bestu. "Ein af ástæðunum fyrir því að ég gekk til liðs við Liverpool var að mig langaði til að leika í Meistaradeildinni. Meira að segja í Evrópukeppni félagsliða, á síðustu leiktíð, þá tók ég eftir því hversu sérstök Evrópukvöldin í Liverpool eru. Ég þekkti Evrópusögu félagsins og hvaða merkingu hún hefur áður en ég gerðist leikmaður Liverpool.
Það var gríðarlegur léttir fyrir alla að við erum nú loksins komnir í Meistaradeildina. Það var léttir að ná fjórða sætinu. En við áttum eftir að komast í gegnum forkeppnina en nú getum við hlakkað til að leika í Meistaradeildinni."
Steve er hæglátur og hann heldur áfram að reyna að gera sitt besta. Hann hefur aldrei kvartað þótt hann hafi ekki verið í liðinu. Ferill hans hjá Liverpool hefur ekki gengið eins og vonir stóðu til. En hvað sem úr verður þá getur írski landsliðsmaðurinn þó verið viss um að hann fer ekki frá Liverpool í bráð. Honum nægir að líta á dagatalið til að vera viss í sinni sök! "Ég er bara feginn að búið er að loka fyrir viðskipti með leikmenn. Það þýðir að enginn fer neitt fyrr en í janúar!"
Eitt getur Steve afrekað hjá Liverpool sem kæmi honum í sögubækurnar. Verði hann enskur meistari með Liverpool þá verður hann búinn að ná fágætu verðlaunasafni. Með því væri hann búinn að ná gullverðlaunum fyrir sigur í öllum fjórum atvinnumannadeildunum á Englandi. Hann á verðlauanpeninga fyrir sigur í hinum deildunum þremur með Fulham og Notts County. Vonandi nær Steve að fullkomna verðlaunasafnið. Hjá Liverpool!