)

Sami Hyypia

Sami Hyypia lék á dögunum þrjúhundraðasta leik sinn fyrir Liverpool. Það er því vel við hæfi að gera þessum magnaða varnarmanni nokkur skil.

Finnski landsliðsmaðurinn var keyptur í maí 1999. Liverpool borgaði hollenska liðinu Willem ll tvær og hálfa milljón sterlingspunda fyrir hann. Sagan segir að myndatökumaður hafi bankað upp á hjá fyrrum ritara Liverpool, Peter Robinson, og sagt honum frá stórum og sterkum miðverði sem hann hafði séð. Myndatökumaðurinn hafði farið víða um Evrópu og vissi að Liverpool var að leita að miðverði. Gerard Houllier fékk skilaboðin og sendi njósnara sína til að fylgjast með Finnanum. Þeim leist ekki síður á Sami en myndatökumanninum og kaup voru gerð.

Sami lék sinn fyrsta leik með Liverpool í fyrstu umferð deildarinnar á leiktíðinni 1999/2000. Liverpool lék þá á útivelli gegn Sheffield Wednesday og vann 2:1 sigur. Vörnina þennan ágústdag skipuðu þeir Vegard Heggem, Jamie Carragher og Dominic Matteo. Sami var ekki einn um að leika sinn fyrsta leik þennan dag því þeir Sander Westerveld, Dietmar Hamann, Vladimír Šmicer og Titi Camara spiluðu líka sína fyrstu leiki fyrir Liverpool. Sami missti aðeins einn leik á fyrstu leiktíð sinni. Auk frábærrar framgöngu í vörninni sýndi hann líka að hann getur verið hættulegur uppi við mark andstæðinga sinna og skoraði tvö fyrstu mörk sín fyrir félagið.

Á leiktíðinni 2000/01 átti fyrirliði Liverpool, Jamie Redknapp, all oft við meiðsli að stríða. Eins var varafyrirliðinn Robbie Fowler ekki alltaf í byrjunarliðinu. Sami leiddi því liðið á stundum sem fyrirliði þess. Árið 2001 var einstaklega sigursælt fyrir Liverpool. Liðið vann fimm titla, Deildarbikarinn, F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða, Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu, og tók Sami þátt í öllum úrslitaleikjunum. Sami var gerður að fyrirliða Liverpool þegar Jamie Redknapp yfirgaf Liverpool og fór til Tottenham í apríl 2002. Hann var orðinn óskoraður leiðtogi liðsins og hafði myndað frábært miðvarðarpar með Svisslendingnum Stephane Henchoz. Til merkis um hækkun hans í tign þá fékk Sami peysu númer 4 fyrir leiktíðina 2001/02. Hann var áður númer 12.

Leiktíðin 2002/03 reyndist Liverpool erfið. Þó náði Liverpool að landa titli þegar erkiféndurnir í Manchester United voru lagðir að velli 2:0 í úrslitaleik Deildarbikarsins. Sami tók við Deildarbikarnum í leikslok sem fyrirliði liðsins. Hann varð þar með fyrsti erlendi leikmaðurinn til að taka við bikar sem fyrirliði Liverpool.

Á síðustu leiktíð heyrðust þær raddir fyrst að Sami væri ekki að spila nógu vel. Gerard Houllier hafði þá skoðun að fyrirliðahlutverkið íþyngdi Sami. Hann tók því þá ákvörðun í október 2002 að taka fyrirliðabandið af Sami og láta Steven Gerrard bera það. Þessi ákvörðun Gerard skilaði því að Sami fór að leika betur á nýjan leik og allt frá þeim tíma hefur verið lítið um gagnrýni í hans garð. Á yfirstandandi leiktíð hefur Sami sem fyrr verið fastamaður í liðinu. Samverkamaður hans í hjarta varnarinnar eru nú Jamie Carragher. Líkt og með Stephane fyrrum þá hefur Sami náð vel saman með Jamie.

Frá því Sami lék sinn fyrsta leik, fyrir fimm og hálfu ári eða svo, þá hefur hann aðeins misst úr um tuttugu leiki. Það er ekki nóg með að Sami hafi sýnt mikinn stöðugleika. Hann er líka mjög skynsamur leikmaður. Það sést best á því að Sami hefur aðeins verið bókaður tólf sinnum og einungis einu sinni hefur hann verið rekinn út af á ferli sínum hjá Liverpool. Frá því í janúar 2000 fram í október 2001 lék hann alls 87 leiki án þess að vera bókaður.

Sem fyrr segir hefur Sami nú leikið 300 leiki fyrir hönd Liverpool. Hann er þar með næst leikjahæstur núverandi leikmanna Liverpool. Reyndar hafa aðeins þeir Robbie Fowler, Jamie Redknapp og Jamie Carragher náð þeim leikjafjölda á seinni árum. Í þessum 300 leikjum hefur hann skorað 22 mörk. Aðeins tveir aðrir núverandi leikmenn Liverpool hafa skorað fleiri mörk fyrir félagið. Sami hefur líka verið verðugur fulltrúi þjóðar sinnar og hefur leikið 67 landsleiki fyrir Finna. Í þeim hefur hann skorað fjögur mörk.

Sami hefur verið einn besti leikmaður Liverpool frá því hann kom til félagsins. Hann er sem stendur traustur í sessi í byrjunarliði Liverpool. Knattspyrnuheimurinn er hverfull. En eins og er bendir fátt til annars en Sami verði í liði Liverpool á næstu misserum. Sami á sannarlega skilið að fá hamingjuóskir á þessum tímamótum!

TIL BAKA