)

Dietmar Hamann

Er hægt að horfa framhjá kappanum eftir þessa frábæru frammistöðu gegn Man City? Hamann á fyllilega skilið að verða valinn maður vikunnar, á því leikur enginn vafi. Lítum á hvað hann sagði fyrir City-leikinn í gær: "Ég skoraði einungis eitt mark á síðasta tímabili og liðið í heild sinni skoraði ekki nógu mörg mörk. Við skoruðum rétt rúmlega 50 mörk og það er ekki nóg fyrir lið í þessum klassa. Ég ásamt hinum í liðinu verðum að skora fleiri mörk."

Jæja, Didi Hamann var ekki lengi að standa við þessi orð og bætti markaskorun sína, ef miðað er við síðasta tímabil, um 100% með tveimur glæsilegum mörkum. Fyrra markið var sérstaklega glæsilegt er hann tók boltann á lofti á kassann, teygði vinstri fótinn í boltann og vippaði honum í hornið, algjör óþarfi að láta boltann snerta jörðina þegar menn búa að slíkri boltatækni. Seinna markið var ekki amalegt er varnarmenn City hreinsuðu ekki nógu vel frá innkast Ziege og Hamann kom stormandi á móti boltanum og þrykkti jarðarbolta óverjandi í markið og allt trylltist og Hamann fagnaði með stæl enda voru menn að búa sig undir að hafa misst annan unnin leik niður í jafntefli.

TIL BAKA