Djibril Cissé
Djibril Cissé kom sá og sigraði í Monte Carlo á dögunum. Þar sýndi hann hvað í honum býr þegar hann kom inn á sem varamaður í Stórbikarleiknum gegn CSKA Moskva. Liverpool var undir frá því fyrri hálfleik og gekk illa að brjóta vörn rússneska liðsins á bak aftur. Það var ekki fyrr en ellefu mínútum fyrir leikslok að Rafael Benítez setti loks Djibril inn á. Frakkinn var þungbúinn þegar hann beið við hliðarlínuna eftir að John Arne Riise kæmi af leikvelli. En aðeins þremur mínútum seinna var Djibril búinn að jafna leikinn. Í framlengingunni skoraði Djibril aftur og hann var ekki búinn að segja sitt síðasta orð því hann lagði svo upp þriðja mark Liverpool fyrir Luis Garcia. Annar Evróputitill ársins var í höfn eftir 3:1 sigur. Liverpool vann Stóbikar Evrópu í þriðja sinn í sögu félagsins og Djibril var valinn Maður leiksins á leikvangi Loðvíks annars.
Djibril fagnaði mörkunum sínum innilega í Mónakó og skyldi engan undra. Hann var búinn að vera undir miklu álagi fyrir leikinn. Ástæðan var sú að fjölmiðlar voru látlaust búnir að fjalla um hugsanlega endurkomu Michael Owen til Liverpool. Hugsanleg brottför Djibril Cissé frá Liverpool var talin vera lykillinn að því að Michael kæmi heim. Djibil leyndi ekki tilfinningum sínum eftir leikinn. ,,Ég fer ekkert í felur. Ég var í miklu uppnámi þegar ég kom inn á völlinn. Mig langaði virkilega til að sýna því því fólki, sem hefur verið leiðinlegt í minn garð og hefur hnýtt í mig, að ég gæti gert góða hluti. Mér tókst að þagga niðri í nokkrum. Það kemur ekki til greina að ég yfirgefi liðið. Ég er búinn að vera hér á annað ár og ég held að ég muni vera hér í önnur þrjú ár. Ég vona að ég uppfylli samninginn sem ég gerði við Liverpool. Það voru miklar vangaveltur um mig og stöðu mína hjá félaginu svo það var augljóst að það var mikilvægt fyrir mig að skora tvö mörk í leiknum um Stórbikarinn. Þetta var góður leikur fyrir mig og þess vegna er ég hamingjusamur. Framtíð min er hjá Liverpool og ég er ánægður hérna. Ég vona að þessi mörk endi vangavelturnar." Mörkin enduðu reyndar ekki vangavelturnar og þær héldu áfram þangað til ljóst var að Michael Owen fór til Newcastle United. Þá loks varð ljóst að Djibril myndi hvergi fara. Reyndar verður aldrei vitað hvort Liverpool hefði farið í það að selja Djibril áður en félagaskiptatímabilinu lyki. Það verður eitt af leyndardómum knattspyrnusögunnar!
En það er ljóst að Djibril Cissé þarf að vera iðinn við markaskorun á þessari leiktíð. Hann er nú svo sem búinn að byrja leiktíðina vel og þegar þetta er ritað hefur hann skorað sex mörk fyrir Liverpool og tvö fyrir franska landsliðið. Mörkin hans fyrir Liverpool eru því orðin fleiri á þessari leiktíð en þau sem hann skoraði á allri síðustu leiktíð. Þá skoraði hann aðeins fimm mörk. Auðvitað er sú markatala ekki marktæk þar sem hið hroðalega fótbrot setti allt úr skorðum fyrir Djibril Cissé. Í raun má segja það kraftaverk að Djibril skuli vera að spila knattspyrnu. Aðeins snör handtök læknaliðs á Ewood Park komu í veg fyrir að Frakkinn hefði hugsanlega misst fótinn!
Margir telja að Djibril sé einhver skrautfugl sem hugsi meira um húðflúr og hárgreiðslu. En endurkoma hans eftir fótbrotið sýnir svo ekki er um að villast að franski landsliðsmaðurinn býr yfir miklum viljastyrk og einbeitingu. Það hefðu ekki allir verið svona fljótir að ná sér eftir jafn alvarlega meiðsli og hann varð fyrir. Bara fyrir þessa endurkomu þá hefur Djibril áunnið sér mikla virðingu hjá stuðningsmönnum Liverpool. Hann getur líka sýnt fram á laun erfiðis síns með tveimur verðlaunapeningum! Að auki er hann kominn í annála Liverpool fyrir að vera einn fárra leikmanna í sögu félagsins til að skora tvö mörk í úrslitaleik.
Jamie Carragher telur að Djibril hafi nú þegar sýnt hversu mikið er spunnið í hann. ,,Við hlógum allir þegar hann sagði okkur á síðasta ári að hann ætlaði að vera kominn aftur til leiks fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni. Það að honum skyldi takst það undirstrikar þann andlega styrk sem hann býr yfir. Ég er viss um að honum finnist, vegna meiðslanna sem hann varð fyrir, að hann hafi enn ekki fengið tækifæri til að sýna öllum hvað hann getur. Hann er líka enn á vissan hátt að venjast Úrvalsdeildinni. En nú er hann búinn að fá tækifærið og ég held að hann hafi hæfileika til að skora mikið af mörkum."
Djibril er markaskorari. Það sýndi hann í Frakklandi. Samt efast margir um að hann eigi eftir að skora nógu mikið af mörkum til að réttlæta þær fjórtán milljónir sterlingspunda sem Liverpool borgaði fyrir hann. Það verður verkefni Djibril Cissé á þessari leiktíð að sýna og sanna að hann geti skorað nóg af mörkum. Til að geta það ætti hann að fara að ráðum Ian Rush. Sem sagt svara fyrir sig inni á vellinum með því að skora mörk!