)

Fernando Morientes

Mark Fernando Morientes gegn Anderlecht á Anfield var eins og frá þeim gamla góða Morientes sem maður bjóst við að sjá hjá Liverpool en hefur verið sárt saknað. Hann hefur virst heldur svifaseinn og hefur farið illa með marktækifæri sín. Alls ekki líkt þeim toppleikmanni sem er í áttunda sæti yfir markahæstu leikmenn Meistaradeildarinnar. Nú var markhornið í sjónmáli og það var ekki að spyrja að því. Hann smellti boltanum í hornið eins og maður hefur oft séð hann að gera á glæstum ferli sínum.

Jamie Carragher er hrifinn af knattspyrnuhæfileikum Fernando Morientes og hefur aldrei efast um að hann væri nógu góður fyrir Liverpool: "Maður veltir fyrir sér þegar leikmenn fara til toppliða hvort þeir séu nógu góðir en ég hef aldrei hugsað um hvort Morientes sé nógu góður fyrir Liverpool. Hann er klassaleikmaður og maður getur séð hversu miklum hæfileikum hann býr yfir. Við sjáum hversu góður hann er á æfingum og það er bara spurning um að hann sýni það í leikjum. Stóra spurningin hefur verið um hvort hvort hann geti aðlagast enska boltanum. Raunveruleg ástæða þess að hann hefur ekki gert það ennþá er vegna meiðsla hans. Í hvert skipti sem hann virðist vera að ná áttum þá meiðist hann. Ef hann nær að leika í nokkrum leikjum án áfalla mun það breyta miklu."

"Hann hefur skorað mörk á meðal þeirra bestu en hann hefur aldrei verið markamaskína eins og Michael Owen eða Robbie Fowler og óraunhæft að ætlast til að hann muni raða inn mörkum".

Fernando Morientes kom til Liverpool frá Real Madrid í janúar á þessu ári og lék 15 leiki og skoraði þrjú mörk tímabilið 2004-2005. Honum gekk upp og ofan á þeirri leiktíð og það sama má segja um þetta tímabil. 

Nú, þegar þetta er skrifað þann 2. nóvember,  hefur Fernando leikið 13 leiki og skorað þrjú mörk á þessu tímabili. En allt frá fyrsta leik leiktíðarinnar gegn T.N.S. hefur honum gengið lítið. Í þeim leik voru honum mislagðar fætur og ekkert gekk í framhaldinu. Ekki bætti úr skák að meiðsli, sem hann varð fyrir með spánska landsliðinu, settu strik í reikninginn og hann missti úr alls einn og hálfan mánuð í upphafi leiktíðar. Fernando sneri aftur eftir meiðsli gegn Blackburn Rovers. Leikurinn vannst sem betur fer 1:0 en Fernando misnotaði þrjú dauðafæri á þeim mínútum sem hann lék undir lok leiksins. Eftir þá endurkomu hafa verið blikur á lofti með form hans. En hann lagði mjög hart að í leiknum gegn West Ham United á Anfield 29. október. Hann skoraði ekki en Fernando lék mjög vel og átti stóran þátt í 2:0 sigri. Í næsta leik gegn Anderlecht smellti hann boltanum í markið. Nú er bara að vona að hann haldi sínu striki í næsta leik og sýni sitt besta í búningi Liverpool á komandi mánuðum.

Lesið nánar um feril Fernando Morientes hér og hér eru ítarlegri upplýsingar um tölfræði hans með Liverpool.

TIL BAKA