Momo Sissoko
Jarðýtan Momo Sissoko hefur vakið feikna athygli fyrir vaska framgöngu á miðju Liverpool á fyrsta tímabili sínu með Rauða Hernum. Momo gekk til liðs við hina virtu knattspyrnuakademíu Auxerre 14 ára að aldri og lærði til knattspyrnuiðkunar undir leiðsögn Guy Roux, aldargömlum vini Gerard Houllier og einum virtasta þjálfara í knattspyrnuheiminum. Momo segir að það hafi verið mikilvægt í þroska hans sem leikmanns: "Ég er hérna í dag vegna hans", sagði Momo um Guy Roux árið 2004 þegar hann var enn leikmaður Valencia. "Hann sagði mér að ég þyrfti á þremur atriðum að halda til að komast áfram sem knattspyrnumaður: 'Aga, vinnusemi og heppni', ég hef alltaf haft það hugfast." Hér má lesa nánar um uppgang Sissoko í þessari grein og sjá að Sissoko var talinn einn af efnilegustu leikmönnum í heimi sumarið 2004.
Eins og mönnum er kunnugt var Everton mjög nálægt því að kaupa Sissoko í sumar frá Valencia. Benítez sem ól drenginn upp hjá Valencia eftir að hann kom úr akademíu Auxerre las um fyrirhuguð kaup Everton á Momo í Liverpool Echo og brást strax við. Hann bjallaði í fyrrverandi vinnuveitendur sína og gekk frá kaupunum á drengnum skömmu síðar. Rafa einfaldlega vissi ekki að
Momo væri falur og þótti honum það ótrúlegt að Valencia skyldi leyfa slíkum leikmanni að yfirgefa félagið. Hvorki Momo né Rafa hafa séð eftir þessum viðskiptum.
"Við höfðum forskot á Everton því að ég þekkti leikmanninn. Hann hafði góðar minningar frá því að vinna titla hjá mér í Valencia. Við vissum að Everton hafði áhuga en það var auðvelt að fá hann til þess að skrifa undir."
Sissoko tekur í sama streng og Rafa: "Hver einasti leikmaður í heiminum hefði tekið sömu ákvörðun og ég. Ég varð að taka tilboð hinna Rauðu framyfir því að þeir eru Evrópumeistarar og ég þekkti vel til Rafa Benítez."
Momo lofaði strax góðu hjá Liverpool. Hann arkaði inn á völlinn eins og kóngurinn á svæðinu. tæklaði og tættist, setti upp undrunarsvip þegar dómarinn ávítti hann og menn eru farnir að hlaupa bókstaflega í felur þegar hann kemur á skriðinu.
Rafa hefur miklar væntingar til hans og það er ekkert ennþá sem mælir því í mót að Momo geti ekki staðið undir þeim: "Sissoko er frábær strákur. Hann var kallaður hinn nýji Vieira fyrir nokkrum árum. Ég sá Vieira þegar hann var átján ára og hann var ekki betri en Sissoko. Hann hleypur meira en Vieira. Eftir nokkur ár verður hann öflugri leikmaður en Vieira."
Hér er nánari tölfræði um feril Sissoko hjá Liverpool.