)

Robbie Fowler

Guð er aftur á meðal vor. Týndi sonurinn hefur ratað heim úr útlegðinni. Hann fær nú tækifæri á að ljúka óunnum verkum hjá Liverpool. Allt frá því Robbie Fowler var seldur til Leeds United hefur hann og fjölmarga stuðningsmenn Liverpool dreymt um endurkomu. Endurkomu sem aldrei átti að þurfa að láta sig dreyma um því það átti aldrei að gera Guð útlægan. Gerard Houllier framdi að margra áliti helgispjöll með því að selja Robbie. Um ástæður er ef til vill erfitt að segja. Þó hygg ég að það liggji í augum uppi að samband þeirra Gerard og Robbie var orðið stirt eftir að Robbie hafði á köflum rekist illa í hópnum. Robbie fór alltaf sínar leiðir og hefur aldrei látið segja sér fyrir verkum. Í ágúst 2001 lenti þeim Robbie og Phil Thompson, aðstoðarmanni Gerard Houllier, illa saman á æfingu. Robbie var settur í skammarkrókinn á meðan beðið var eftir afsökunarbeiðni hans. Þrátt fyrir sættir þeirra nokkrum dögum seinna þá var þetta kannski kornið með fyllti mælinn. Að minnsta kosti varð Robbie leikmaður Leeds United þremur mánuðum seinna. Robbie skoraði nokkur mörk fyrir Leeds og seinna Manchester City. En það virtist alltaf vanta gleðina í andlit hans. Nema þá þegar hann skoraði gegn Manchester United! 

En Robbie leyndi því aldrei að hann óskaði þess heitt að geta einhvern tíma snúið aftur heim til Liverpool. Þetta kom vel í ljós á liðnu hausti þegar rætt var við Robbie út af ævisögu hans sem þá kom út. ,,Nokkrir hafa spurt mig hvort ég sjá eftir einhverju þegar ég horfi til baka á feril minn. En ég er ekki viss um að ,,eftirsjá" sé rétta orðið. Eftir á er alltaf auðvelt að segja að maður sjái eftir einhverju. Það er rétt að mér finnst að ég hefði ekki átt að fara frá Liverpool þegar ég gerði það. En eftirsjá er ekki alltaf slæm. Það er alltaf auðvelt að líta til baka og velta því fyrir sér hvernig hlutirnir  hefðu getað verið öðruvísi. Í fullkomnum heimi myndi ég, einn góðan veðurdag, fara til baka til Liverpoo. En við lifum ekki í fullkomnum heimi er það nokkuð? Það er ekki þannig að ég ráði þessu. Ég hef látið hafa eftir mér að ég myndi vilja fyrir hvern mun snúa einhvern tíma til baka til Liverpool að sinna einhverju hlutverki þar. En maður veit aldrei hvað getur gerst í knattspyrnunni. Nokkrir hafa sagt mér að það hafi nokkrum sinnum, á síðustu árum, munað litlu að ég sneri aftur til Liverpool. Ég veit reyndar ekki hversu mikill sannleikur er til í þeim sögusögnum." Þetta sagði Robbie í haust. Nú í annarri viku þorra rættist draumurinn.

Rafael Benítez og Stuart Pearce eiga þakkir skildar fyrir að gefa Guði kost á endurkomu. Orð þeirra tveggja segja sína sögu um þessi ævintýralegu viðskipti. Rafael sagðist aldrei áður hafa séð leikmann eins ánægðan eftir að hafa gengið til liðs við nýtt félag. Stuart sagði að Liverpool væri draumaliðið hans Robbie og það hefði ekki verið hægt að standa í vegi fyrir því að endurkoman yrði að veruleika. Það hefði ekki verið neinum til góðs að gera það.

Það fór heldur ekkert á milli mála að endurkoman var tilfinningaþrungin og Robbie sagðist ekki geta lýst tilfinningum sínum. ,,Ef ég á að vera heiðarlegur þá get ég ekki lýst því hvernig mér líður vegna þess að ég hef ekki enn náð áttum. Bara það að taka mér ferð á hendur og koma aftur til Anfield var frábært. Að koma inn á skrifstofuna og auðvitað að skrifa undir var nokkuð sem mig hefur lengi langað til að myndi gerast." Ekki minnkaði tilfinningaflæðið eftir að Robbie var búinn að skrifa undir samning við Liverpool. ,,Eftir að ég skrifaði undir samninginn sat ég í bílnum mínum fyrir utan Anfield og tilfinningarnar tóku völdin. Þetta er ótrúlegt og er algjör draumur fyrir mig. Ég trúi því vart að ég sé kominn aftur. Mín mesta eftirsjá á ferlinum var síðasti leikur minn fyrir Liverpool þegar ég var tekinn af velli í hálfleik gegn Sunderland. Ég fékk aldrei tækifæri til að kveðja stuðningsmennina." Núna hefur það tækifæri gefist.

Þessi endurkoma er einstök í sögu Liverpool. Reyndar hafa endurkomur seldra leikmanna verið fáar í gegnum tíðina. Steve Staunton sneri aftur. Hann markaði ekki djúp spot í seinni dvöl sinni hjá Liverpool. Það gerði Ian Rush á hinn bóginn þegar hann sneri aftur síðsumars 1988 eftir að hafa dvalið eitt ár í herbúðum Juventus. Ian kom heim og tók til við að skora og vinna titla þaðan sem frá var horfið.

Endurkoma Robbie Fowler er af allt öðrum toga vegna þess hvernig viðskilnaður hans var á sínum tíma. Hann var goðsögn í lifanda lífi hjá stuðningsmönnum Liverpool. Hann var okkar maður vegna þess hvernig hann bar sig til við alla hluti. Inni á vellinum lagði hann allt í sölurnar fyrir Liverpool. Utan vallar fór hann sínu fram og fór ekki í felur með mannlega breyskleika. Sumir telja að honum hafi gengið illa að takast á við það þegar Michael Owen kom fram í sviðsljósið og dró að sér athyglina. Kannski er eitthvað hæft í því en á sama tíma lenti Robbie fyrst í meiðslum. Þau áttu eftir að setja stór strik í reikninga hans. Ekki síst eftir að hann yfirgaf Liverpool. Um tíma var meira segja óttast að hann yrði að leggja skóna á hilluna. En það fór ekki svo. Robbie er enn að. Hann skoraði þrennu fyrir Manchester City þegar liðið lagði Scunthorpe United 3:1í 3. umferð F.A. bikarsins nú í upphafi árs. Viku síðar sökkti hann Manchester United þegar hann skoraði síðasta mark leiksins þegar City vann granna sína 3:1. Fögnuður hans yfir markinu komst í fréttir! Þarna fór maður sem var enn að hugsa um gamla félagið sitt! Hverjum hefði dottið í huga að hálfum mánuði síðar væri hann orðinn leikmaður þess á nýjan leik!

Það er auðvitað algerlega ómögulegt að sjá það fyrir hvernig endurkoma Robbie Fowler á eftir að ganga fyrir sig. Það eina sem liggur fyrir er að Robbie er búinn að gera samning við Liverpool til vors. Þá verður staðan metin og ákvörðun tekin um næstu skref. Kannski endar ferill Robbie hjá Liverpool þá. Kannski verður hann lengri. En hvernig sem fer þá geta hvorki Robbie Fowler eða Liverpool tapað á þessu ævintýri. Bara stemmningin sem á eftir að fylgja endurkomu hans er þess virði að það var ráðist í þessi vistaskipt!

Eitt er þó víst. Stundin þegar Robbie Fowler klæðist rauðu peysunni á nýjan leik og hleypur til leiks á Anfield Road verður ein sú tilfinningaþrungnasta í sögu Liverpool. Hvorki stuðningsmenn Liverpool eða Robbie Fowler eiga eftir að gleyma henni. hún fer beint í þjóðsagnasafn félagsins!

 

 

TIL BAKA