)

Chris Kirkland

Eins og greint var frá í fréttahorni liverpool.is 27. október er Liverpool búið að ná samkomulagi við Wigan um að selja Chris Kirkland til liðsins. Hann hefur staðið sig með sóma og verið að mestu laus við meiðsli síðan hann var lánaður til Paul Jewell og félaga í upphafi tímabils.

Kaupverðið er talið vera um 3,5 milljónir punda en ekki er hægt að ganga formlega frá sölunni fyrr en 1. janúar þegar næsta félagaskiptatímabil hefst.

Chris Kirkland lék 45 leiki fyrir Liverpool eftir að hann kom frá Coventry á sex milljónir punda 31. ágúst 2001. Hann var lánaður til WBA á síðasta tímabili og nú hefur hann einungis leikið átta leiki með Wigan en greinilega staðið sig það vel að Wigan vill tryggja sér þjónustu hans nú strax.

Chris Kirkland lenti ótrúlega oft í meiðslum hjá Liverpool og bitnaði það á sjálfstrausti hans. Hann glímdi við meiðsli í baki á fyrsta tímabili sínu. Chris vann sér loks fast sæti í liðinu í desember 2002 en þá skall ógæfan á. Þann 26. janúar 2003 sleit hann krossbönd í hné eftir samstuð við Dele Adebola í bikarleik Liverpool og Crystal Palace (sjá mynd) og missti af afgangnum af tímabilinu.

Hann hóf loks æfingar eftir krossbandameiðslin sumarið 2003 og var bjartsýnn á framtíðina:
“Ég á eftir að sanna mig fyrir stuðningsmönnunum og eins fyrir liðsfélögum mínum. Vonandi næ ég að gera það á næstu árum. Nú er ég mættur aftur til æfinga með liðinu og það gerir alla þessa vinnu sem ég hef lagt á mig, þess virði. Þetta eru launin mín. Þetta hefur verið gríðarleg vinna og eins og með öll alvarleg meiðsli, þá komu dagar þar sem ég efaðist um að ég gæti spilað aftur. Þetta eru án nokkurs vafa erfiðustu meiðsli sem ég hef nokkurn tímann lent í. Ég hef sagt allan tímann að þetta er ekki bara líkamlega erfitt, heldur líka andlega."

Gerard Houllier hafði tröllatrú á sínum manni og í október 2003 framlengdi Kirkland samning sinn hjá Liverpool um tvö ár frá 2007 til 2009. Chris fékk aftur tækifæri til að vinna sér fast sæti í liðinu þegar hann byrjaði inn á í Úrvalsdeildinni gegn Middlesbrough 22. nóvember. Hann virtist vera kominn aftur á beinu brautina en þá varð hann fyrir enn öðru áfalli. Hann fingurbrotnaði gegn Bolton annan dag í jólum og varð að fara í aðgerð. Hann gat ekki æft í tvo mánuði en eftir tvo leiki á bekknum tók Gerard Houllier hann aftur fram yfir Jerzy Dudek í markinu. Chris tókst að þessu sinni að leika 5 leiki í röð frá 22. febrúar til 11. mars 2004. Hvað gerðist svo? Jú, á æfingu fyrir leik gegn Southampton úlnliðsbrotnaði hann og tímabilinu var lokið.

Tímabilið 2004-2005 tók við þvílíkt blómaskeið hjá Chris Kirkland ef miðað er við ótrúlega óheppni hans hjá Liverpool. Honum tókst að að vera í byrjunarliðinu í heila tvo mánuði frá október til desember 2004 án þess að meiðast. Hann var einungis hvíldur tvisvar sinnum á þessu tveggja mánaða skeiði en þá fékk Jerzy Dudek tækifæri í Deildarbikarnum eins og tíðkast með varamarkmenn Liverpool. Chris komst aftur í landsliðshópinn og var allt í sóma. Komu næstu tíðindi á óvart? Nei, hann þurfti að gangast undir uppskurð í baki og tímabilinu var lokið í desember alltof snemma enn og aftur!

Chris var ráðþrota: “Það er erfitt að lýsa því með orðum sem ég hef þurft að ganga í gegnum. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt og ég hef í raun aldrei náð mér almennilega í gang síðan ég kom hingað fyrst. Ég hef lent í alvarlegum meiðslum en maður verður að halda áfram, ekki hengja haus, og það er ég að reyna að gera núna. Fólk hefur komið til mín og óskað mér góðs gengis og sagst vona að ég komi fljótt aftur og það er gott að heyra það. Ég veit ekki hvað ég hef gert í fyrra lífi en það hefur greinilega ekki verið neitt fallegt.”

Scott Carson gekk til liðs við Liverpool í janúar 2005 og Jose Reina var á leið til Liverpool um sumarið. Chirs var því ekki til setunnar boðið og var lánaður til WBA um sumarið. Hrakfallasögu hans var ekki lokið þar. Honum tókst að merja á sér annað nýrað og fingurbrotna á því eina tímabili sem hann dvaldi hjá WBA. Hann sneri aftur til Liverpool í vor en var lánaður til Wigan í sumar. Ef að félagsskiptum Kirkland til Wigan verður vonum við Púllarar það allra besta fyrir hans hönd og hann eigi eftir að leika fjölda leikja í efstu deild og eiga farsælan feril án teljandi meiðsla.

AB

TIL BAKA