Jermaine Pennant
Kannski er komið að því að einn efnilegasti leikmaður Englands sé nú farinn að uppfylla eitthvað af þeim væntingum sem til hans hafa verið gerðar. Það var búist við miklu þegar Arsenal keypti Jermaine Pennant og borgaði stórfé fyrir hann. Hann náði aldrei að festa sig í sessi hjá Skyttunum og eftir nokkrar lánsdvalir var hann seldur til Birmingham City. Þaðan kom hann til Liverpool á liðnu sumri. Það er óhætt að segja að stuðningsmenn Liverpool hafi ekki verið neitt uppveðraðir við þau tíðindi enda hafði orðspori piltsins hrakað jant og þétt.
Jermaine byrjaði vel og var af mörgum talinn besti maður vallarins þegar hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool gegn Maccabi Haifa í forkeppni Meistaradeildarinnar. Liverpool vann 2:1 á Anfield Road og Jermaine fór illa með bakvörð ísraelska liðsins í leiknum. Í öðrum leik sínum vann hann sér svo inn verðlaunapening þegar Liverpool lagði Chelsea 2:1 að velli í Skjaldarleiknum. En þegar leið á haustið fór að ganga verr. Svo fór að Jermaine var gersamlega búinn að missa sjálfstraustið og allt gekk á afturfótunum. Í raun fannst þá mörgum stuðningsmönnum Liverpool sem að þeir hefðu fengið grun sinn staðfestan um að Jermaine myndi ekki skila neinu hjá Liverpool.
Það var á Ataturk leikvanginum þar sem Liverpool vann Evrópubikarinn sællar minningar að gengið fór að snúast Jermaine í hag. Hann átti góðan leik og þrátt fyrir að Liverpool tapaði leiknum 3:2 þá gat Jermaine verið sáttur. Hann lagði til dæmis upp seinna mark Liverpool fyrir Robbie Fowler með glæsilegri rispu. Eftir þetta fór að ganga betur. Hann átti stórleik í nýárssigrinum á Bolton og nú á dögunum skoraði hann loks sitt fyrsta mark fyrir Liverpool þegar Chelsea lá í valnum 2:0 á Anfield Road. Markið var af fallegri gerðinni og það á án efa eftir að auka sjálfstraustið hjá þessum hæfileikaríka strák. Hann var líka ánægður með markið. "Að skora mark eins og þetta var mjög sérstakt og frábær leið fyrir mig að skora mitt fyrsta mark fyrir Liverpool. Það var ekkert í boði fyrir mig inn í vítateig þannig að ég ákvað bara að skjóta og það var gott að sjá boltann fara í markið."
Rafael Benítez hefur mikið álit á Jermaine Pennant enda hætti hann ekki fyrr en honum tókst að fá hann til félagsins. "Hann er snöggur, getur leikið á leikmenn og gefið fyrir. Fjölmargir kunna að gefa boltann fyrir en hann getur gefið fyrir þó að leikmaður sé í honum og fyrirgjafirnar hans eru mjög góðar. Hann getur gefið fyrir í fyrsta eftir að boltinn berst til hans. Hann er klassaleikmaður. Það er mikilvægt að leikmennirnir skilji hvern annan. Hann er ungur leikmaður sem er enn að læra og skilningur hans gagnvart öðrum leikmönnum er sífellt að batna. Ég veit ekki um marga hægri kantmenn sem eru betri en Jermaine í ensku úrvalsdeildinni."
Jermaine, sem hélt með Liverpool í æsku, veit að hann verður að standa sig. Mistakist honum að ná sér á strik hjá Liverpool er hætt við að hann muni ekki komast að hjá stórliði aftur. Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í haust þá sýnist honum að það sér bjart framundan. "Mér finnst að ég hafi núna komið mér fyrir á Anfield. Ég er öruggari með mig og mér finnst að ég sé enn að afsanna skoðannir þeirra sem höfðu ekki trú á mér. Sjálfstraustið er alltaf að aukast og ég hlakka til hvers einasta leiks. Kannski hef ég afsannað hrakspár einhverra með þessari framgöngu minni. Framkvæmdastjórinn hefur sagt að hann hafi alltaf haft trú á mér. Þess vegna keypti hann mig." Það er vonandi að Jermaine muni spjara sig hjá Liverpool. Hann hefur að minnsta kosti þá hæfileika sem til þarf.
Sf. Gutt.