)

Yossi Benayoun

Ísraelinn Yossi Benayoun lét sannarlega að sér kveða í metsigri Liverpool á Besiktas í Meistaradeildinni. Hann skoraði þrennu. Það er ekki á hverjum degi sem miðjumaður skorar þrennu en þar fyrir utan fór hann gersamlega á kostum í leiknum. Það sem af er ferils hans hjá Liverpool hefur hann sýnt að það er mikið spunnið í hann. Nú þegar hefur hann skorað fimm mörk og öll framganga hans lofar góðu.

Yossi var í sigtinu hjá forráðamönnum Liverpool um nokkurt skeið en það var ekki fyrr en í sumar að hann söðlaði um og flutti sig norður til Liverpool frá Lundúnum þar sem hann hefur spilað síðustu árin með West Ham United. Þar hafði Yossi getið sér gott orð og verið einn besti maður Hamranna. Þeir vildu ólmir halda honum en hann vildi spreyta sig hjá Liverpool. "Ég er mjög ánægður með að vera kominn til stórs félags eins og Liverpool og það er sem draumi líkast. Ég átti góðan tíma hjá West Ham en þegar stórt félag eins og Liverpool sýnir þér áhuga þá er erfitt að segja nei."

Yossi lék sinn fyrsta leik í Frakklandi þegar Liverpool sótti Toulouse heim í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann lék mjög vel í seinni leik liðanna. Það vakti á hinn bóginn athygli að hann var hvergi nærri þegar Liverpool lék gerði markalaust jafntefli við Birmingham á heimavelli. Fjarvera hans átti sér þær skýringar að Yossi er gyðingur og helgina sem Liverpool lék gegn Birmingham bar upp á friðþægingardag gyðinga og þá hafa þeir hægt um sig. Yossi kom líka vel hvíldur í næsta leik og lét aðsér kveða. Liverpool svaraði hörðum gagnrýnisröddum, eftir leikinn gegn Birmingham, með mögnuðum 4:2 útisigri á Reading í Deildarbikarnum. Fernando Torres var mest í sviðsljósinu í þeim leik og skoraði þrennu en Yossi skoraði fyrsta mark leiksins og jafnframt það fallegasta í leiknum. Í næsta leik kom hann inn sem varamaður og skoraði sigurmark Liverpool í 1:0 útisigri á Wigan.

Sprengjukvöld þeirra Englendinga var að kveldi fimmta nóvember en það var kvöldið eftir, þegar Liverpool lék gegn Besiktas, sem Yossi sprakk út. Þetta var leikur sem Liverpool varð að vinna til að eiga möguleika á að komast upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni. Stuðningsmenn Liverpool hvöttu lið sitt til dáða og það stóð ekki á hetjunum þeirra í þetta sinn. Þeir buðu þeim 41.143 áhorfendum, sem voru viðstaddir, upp á sannkallaða flugeldasýningu! Peter Crouch kom Liverpool yfir en þá tók Yossi við. Hann skoraði fyrsta mark sitt á 32. mínútu. Ísraelinn fullkomnaði svo þrennuna á fjórum mínútum á upphafskafla síðari hálfleiks. Annað markið kom á 52. mínútu og það þriðja á 56. mínútu. Öll mörkin skoraði hann úr vítateignum. Þeir Steven Gerrard, Ryan Babbel sem skoraði tvö og Peter með öðru marki sínu innsigluðu svo stærsta sigurinn í sögu Meistaradeildarinnar. Liverpool : Besiktas 8:0 stóð á markatöflunni á Anfield Road og sigurinn fór beinustu leið í metabækurnar! Hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér þá er það næsta víst að Yossi Benaypun mun aldrei gleyma því þegar hann skoraði þrennuna gegn Besiktas. Metabækurnar munu passa upp á það!

Sf.Gutt.

Númer 1...

Númer 2...

Númer 3...

 

 

 

 

TIL BAKA