Javier Mascherano
Lengsta söluferli eins leikmanns, í sögu Liverpool, lauk á hlaupársdegi þegar Javier Mascherano skrifaði loksins undir samning við Liverpool! Söluferlið tók rúmlega eitt ár því það var í lok janúar 2007 sem Liverpool fékk leyfi til að fá Javier að láni. Hann var búinn að vera hjá West Ham United í hálfa leiktíð en þar á bæ höfðu menn ekki not fyrir hann og það þótt Hamrarnir væru í harðri fallbaráttu. Rafael Benítez var þó fullviss um að hann gæti notað þennan harðsnúna miðjumann frá Argentínu. Hann og forráðamenn Liverpool lögðu nótt við dag til að afla nauðsynlegra leyfa til að ná Javier til Liverpool.
Það tókst og stuðningsmenn Liverpool sáu fljótlega að allt brasið við að fá Javier var þess virði. Javier vann sér fljótt fast sæti í liði Liverpool og lék mjög vel til vors. Eftir að þessi leiktíð hófst var látlaust verið að tala um hvort Liverpool myndi eða gæti keypt hann. Við tók langt ferli. Rafael vildi fyrir alla muni fá Argentínumanninn í raðir Liverpool fyrir fullt og fast. "Við vitum af áhuga Juventus og annarra liða en við höfum möguleika á að kaupa hann. Javier er mjög ánægður hérna og vill vera áfram. Við þurfum að gera okkar allra besta í að halda honum hérna áfram."
Javier var á sama máli. "Ég er rólegur og afslappaður varðandi þetta. Frá mínu sjónhorni þá er þetta einfalt. Ég vil spila fyrir Liverpool og ég vil skrifa undir samning við Liverpool svo ég geti verið hér til frambúðar. Ég hef sagt Rafael Benítez frá þessu og hann hefur sagst vilja halda mér. Ég hef fengið mig fullsaddan af því að ferðast heimshornanna á milli og skipta um félag. Ég vil ekki skipta um félag aftur í sumar." Söluferlið endaði loks farsællega á hlaupársdegi. Það munaði vel um þennan aukadag ársins!
Javier var glaður þegar samningurinn var í höfn. "Ég hef alltaf sagt að ég vil vera áfram hjá Liverpool og nú þegar ég hef skrifað undir þá get ég sagt að þetta sé besta stundin á mínum ferli til þessa." Rafael Benítez var ekki síður ánægður. "Hann er ungur en býr yfir mikilli reynslu eftir að hafa spilað fyrir þjóð sína. Við vissum að hann yrði góð kaup. Það er ljóst að hann er einn besti miðjumaðurinn í heiminum en hann getur orðið enn betri hjá okkur. Við búum yfir mörgum möguleikum á miðri miðjunni hjá okkur og það eru góðar fréttir fyrir félagið."
Javier Mascherano er nú orðinn leikmaður Liverpool. Hann gerði fjögurra ára samning við Liverpool og vonandi verður hann lengur en það. Að minnsta kosti hefðu stuðningsmenn Liverpool ekkert á móti því að hafa hann lengur en það miðað við hvernig hann hefur verið að spila. Hann er búinn að leika frábærlega að undanförnu og margir töldu hann vera besta leikmann Liverpool í báðu leikjunum gegn Inter Milan í Meistaradeildinni. Víst er að hann lék frábærlega í þeim leikjum. Hann skoraði svo fyrsta mark sitt fyrir Liverpool gegn Reading á dögunum. Hann skorar ekki oft enda fagnaði hann markinu eins og brjálæðingur. "Þetta var ótrúleg stund. Ég hef ekki skorað mark frá því ég spilaði með River Plate. Það var því einstakt að skorað fyrir Liverpool. Markið var ekki síður sérstakt fyrir þær sakir að ég skoraði fyrir framan The Kop. Ég get ekki lýst tilfinningunni sem greip mig þegar ég skoraði en ég veit að ég fagnaði eins og ég ég hefði gengið af göflunum."
Sf. Gutt.