Krisztian Nemeth
Það eru fjölmargir ungir og efnilegir leikmenn í röðum Liverpool. Margir telja þó að Krisztian Nemeth sé sá efnilegasti af þeim öllum. Ungverjinn sókndjarfi kom til Liverpool fyrir einu ári og á þeim tíma hefur hann vakið mikla athygli. Margir telja að hann eigi eftir að verða fastamaður í liði Liverpool á næstu árum.
Krisztian Nemeth fæddist þann 5. janúar 1989 í Győr í Ungverjalandi. Hann lék fyrst með Győri ETO áður en hann fór til MTK Hungária. Liverpool keypti hann þaðan sumarið 2007. Andras Simon kom með honum. Þeir félagar höfðu vakið áhuga útsendara Liverpool á Evrópumóti undir 17 ára liða. Krisztian lét strax að sér kveða með varaliði Liverpool og skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik gegn Manchester City. Krisztian skoraði látlaust til vors og varð markakóngur varaliðsins sigursæla með átta deildarmörk í ellefu leikjum! Varaliðið vann norðurriðil varaliðsdeildarinnar og lék til úrslita um Englandsmeistaratitilinn við Aston Villa á Anfield Road. Krisztian skoraði fyrsta mark Liverpool og lagði grunn að 3:0 sigri Liverpool. Fyrsta leiktíð Ungverjans hjá Liverpool gat ekki gengið betur.
Krisztian Nemeth hefur raðað inn mörkum fyrir yngri landslið Ungverja. Með undir 17 ára liðinu hefur hann leikið skorað 11 mörk í níu leikjum. Einu marki fleira hefur hann skorað með undir 19 ára liðinu í átta leikjum. Með undir 21 árs liðinu hefur hann skorað 13 mörk í aðeins sjö leikjum. Hann var svo valinn í aðallandsliðið í fyrsta sinn og fylgdist með af bekknum þegar Ungverjar gerðu 1:1 jafntefli við Króata. Það er mjög ósanngjarnt að líkja stráknum við goðsagnir ungverskrar knattspyrnu en því hefur verið hvíslað í Ungverjalandi að Krisztian Nemeth sé hinn "nýi Puskas". Hann verður þó líklega aldrei jafn góður og Puskas en þessi samlíking gefur þó til kynna að hann sé talinn vera mikið efni í heimalandi sínu.
Í herbúðum Liverpool hefur honum reyndar verið líkt við sjálfan Kenny Dalglish! Gary Ablett, þjálfari varaliðs Liverpool, telur mikið spunnið í Ungverjann og telur hann hafa ýmsa þá hæfileika sem Kenny bjó yfir. "Þetta er líklega röng samlíking en ég var svo heppinn að leika með Kenny í fyrstu leikjum mínum hjá Liverpool og Krisztian minnir mig nokkuð á hann. Hann hefur mjög gott jafnvægi, getur snúið baki í varnarmennina, snúið sér við og rokið framhjá þeim. Hann á samt mikið eftir ólært. Hreyfingar hans geta batnað. Við segjum alltaf við ungu leikmennina okkar að þeir þurfi ekki að hafa boltann til að vera inni í leiknum og haft áhrif á spilið innan liðsins. Hann skorar ekki mikið með vinstri fætinum en það er eitthvað sem að við erum að reyna að bæta og það sama gildir um höfuðið á honum. En með hægri fætinum getur hann fundið réttu staðina á rammanum og náð góðum skotum án uppstillingu og tilhlaups. Markaskorun er honum einfaldlega meðfædd. Við verðum samt að halda okkur á jörðinni vegna þess að hann er aðeins nítján ára gamall. Rafa mun taka ákvörðun um það hvenær og hvar Nemeth fær sitt tækifæri og sú ákvörðun hjá honum verður sú rétta."
Krisztian er búinn að fá smjörþefinn að aðalliðinu núna á undirbúningstímabilinu. Hann lék sinn fyrsta leik gegn Villarreal og fékk gott færi til að skora. Hann lagði svo upp mark gegn Rangers og fiskaði víti. Ungverjinn á langt í land en leikmaður númer 55 hjá Liverpool er óumdeilanlega mikið efni.
Sf. Gutt.