Dirk Kuyt
Fáir leikmenn Liverpool voru meira gagnrýndir á síðustu leiktíð en Dirk Kuyt. Honum gekk þá flest í mót en nú hefur hann snúið blaðinu við. Hann hefur skorað sjö mörk á leiktíðinni og átt þátt í nokkrum. Sem fyrr segir þá lá Dirk undir ámæli lengst af á síðustu leiktíð. Honum þóttu mislagðar fætur í sókninni og mörkin létu á sér standa. Rafael Benítez brá þá á það ráð að færa hann út á hægri kant og þá fór Hollendingnum að ganga betur. Þegar upp var staðið hafði Dirk skorað ellefu mörk sem var með því mesta. Hann lagði líka upp mörg mörk.
Á þessari leiktíð hefur Dirk verið fastamaður í liði Liverpool. Rafael Benítez ber greinilega mikið taust til Hollendingsins duglega sem aldrei stoppar og líklega er Dirk Kuyt eitt af fyrstu nöfnunum sem Rafa skrifar þegar hann er að skrifa niður byrjunarliðið. Trúlega finnst Rafa kraftur og ósérhlífni Dirk gagnast liðinu sínu vel og því verður ekki á móti mælt að framhjá þessum eðliskostum hans verður ekki litið. Þjálfarar hollenska landsliðsins hafa verið sama sinnis og Dirk hefur jafnan verið valinn í hollenska landsliðið. Hann stóð sig til dæmis vel í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í sumar.
Dirk veit samt vel að knattspyrnumenn eru alltaf í sviðsljósinu. Bæði þegar vel gengur og ekki síður þegar á móti blæs. "Maður verður að gera sér grein fyrir því, þegar maður spilar með liði eins og Liverpool, að það eru gerðar miklar kröfur til manns. Það er alltaf fylgst með manni og þegar vel gengur er skrifað vel um mann í blöðunum. En það er ekki síður skrifað mikið um mann ef maður misnotar nokkur færi eða spilar ekki vel. Þetta er allt tvíeggjað en svona er knattspyrnan. Ég tek þetta ekki svo nærri mér en það er svo sem ekkert gaman að lesa blöðin þegar maður er tekinn fyrir í þeim."
Þegar Dirk átti hvað erfiðast uppdráttar á síðustu leiktíð var hann að takast á því sáran föðurmissi en faðir hans lést úr krabbameini á síðasta ári. Þeir feðgar voru mjög nánir og Dirk tók fráfall föður síns mjög nærri sér. Hann sagði síðar að sorgin hefði haft áhrif á hann inni á vellinum. Þarna sést að margt hefur áhrif á gengi atvinnumanna í knattspyrnu og þeir eru auðvitað mannlegir þó það gleymist næstum því á köflum.
Hvað sem úr verður á þessari leiktíð þá hefur Dirk það á afrekaskrá sinni að skora dýrmætasta markið hingað til á leiktíðinni. Hann skoraði sigurmark Liverpool gegn Standard Liege í forkeppni Meistaradeildarinnar. Það mark kom Liverpool áfram í riðlakeppnina og færði félaginu fúlgur fjár! Dirk hefur því borgað sig á þessari leiktíð!
Sf. Gutt.