)

Fernando Torres

Lesendur Liverpool.is hafa kveðið upp dóm sinn og samkvæmt áliti þeirra þá er Fernando Torres Maður ársins 2008 hjá Liverpool. Þá krýningu á þessi magnaði Spánverji sannarlega skilið eftir að hafa leikið frábærlega á árinu.

Fernando Torres raðaði inn mörkum fyrir Liverpool og í heimalandi sínu varð hann þjóðhetja þegar hann skoraði sigurmark Spánverja gegn Þjóðverjum í úrslitaleik Evrópukeppni landsliða.

Sé fyrst vikið að afrekum Fernando Torres hjá Liverpool þá skoraði hann 33 mörk á sinni fyrstu leiktíð hjá félaginu. Leikmaður Liverpool hafði ekki skorað fleiri mörk í áraraðir og aldrei hefur útlendingur skorað fleiri mörk á sinni fyrstu leiktíð í ensku knattspyrnunni. Það sem af er þessarar leiktíðar hefur hann skorað sex mörk. Ef einungis árið 2008 er tekið þá skoraði Fernando 23 mörk fyrir Liverpool. Það var vel tekið eftir afrekum hans á Englandi og Fernando var valinn í fjölmörg úrvalslið fyrir framgöngu sína. Hann fékk líka tilnefningar í öllum kjörum um bestu leikmenn á Englandi, Evrópu og heiminum.

En það voru ekki bara mörk og viðurkenningar sem gerðu Fernando Torres svo vinsælan hjá stuðningsmönnum Liverpool. ,,Strákurinn" kom líka vel fyrir innan vallar sem utan og hann þreyttist ekki á að dásama hina nýju heimaborg sína og stuðningsmenn Liverpool. Það gerði hann ekki til að ganga í augun á stuðningsmönnum Liverpool. Honum hefur einfaldlega líkað lífið í Liverpool sérlega vel. Því hvort sem utan að komandi trúa því eða ekki þá er Liverpool einstakur staður.

En það var ekki bara í Liverpool sem Fernando var hampað. Hann varð á liðnu sumri, ásmat félögum sínum í spænska landsliðinu, þjóðhetja þegar Spánverjar unnu Evrópukeppni landsliða. Spánverjar unnu Þjóðverja 1:0 í úrslitaleik í Vínarborg og Fernando Torres skoraði markið mikilvæga sem færði Spáni sinn fyrsta stórtitil frá því sami titill vannst árið 1964. Hann var hylltur eftir að hafa skorað þetta mark og er í hávegum hafður á Spáni.

Þetta urðu niðurstöður valsins.

Fernando Torres 37,33 %

Steven Gerrard 34,01 %

Rafael Benítez 11,68 %

Sami Hyypia 5,48 %

Jamie Carragher 4,76 %

Jose Reina 4,54 %

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 2,20 %

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 2226.

Til gamans þá er hér niðurstaðan úr kjöri á Manni árins 2007.

Steven Gerrard 37,12 %

Fernando Torres 30,98 %

Jamie Carragher 11,23 %

Jose Reina 6,78 %

Rafael Benítez 6,53 %

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 3,34 %

George Gillett / Tom Hicks 2,13 %

Peter Crouch 1,89 %

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez

Sf. Gutt.

TIL BAKA