)

Lucas Leiva

Hver hefði nú trúað því að það væri samdóma álit stuðningsmanna Liverpool nær og fjær að Lucas Leiva hefði verið besti leikmaður Liverpool á síðasta keppnistímabili? Það var nú samt svo að þegar leiktíðin var að baki og farið var yfir farinn veg að flestum bar saman um að Lucas hefði skarað fram úr í leikmannahópi Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool á Íslandi völdu Lucas sem besta mann Liverpool og það gerðu líka stuðningsmenn liðsins um víða veröld þegar sá besti var valinn í gegnum vefkosningu á Liverpoolfc.tv. 

Það sem gerði þessa niðurstöðu enn magnaðri var að Lucas hefur lengst af ferli sínum verið lítt í uppáhaldi hjá flestum stuðningsmönnum Liverpool og á tímabili var spjótunum jafnan beint að honum ef eitthvað fór úrskeiðis hjá liðinu. En sama er þó honum, eins og öðrum hafi stundum orðið á, þá er hann búinn að vera fastamaður hjá Rafael Benítez, Roy Hodgson og Kenny Dalglish. Segir það ekki að eitthvað sé spunnið í Brasilíumanninn sem líka hefur átt sæti í landsliðhópnum þeim? 

Lucas var að sjálfsögðu ánægður með þá viðurkenningu sem hann fékk hjá stuðningsmönnum Liverpool. ,,Þetta sýnir að þeir kunna virkilega að meta þá vinnu sem ég legg á mig fyrir liðið og ég mun ekki breyta neinu. Ég legg mig alltaf allan fram í hverjum einasta leik og reyni að gera góða hluti fyrir þetta félag. Mér líður mjög vel og vil vera sigursæll. Mér finnst að ég sé að bæta mig á hverri einustu leiktíð en þessi hefur verið sérstök fyrir mig því ég hef náð að sýna stöðugleika. Honum hef ég verið að leita eftir á undangengnum keppnistímabilum. Ég er virkilega ánægður með hvernig ég spilaði og mig langar að þakka liðfélögum mínum. Án þeirra hefði ég ekki unnið svona verðlaun. Ég vil líka þakka þjálfaraliðinu fyrir að hjálpa mér á hverjum degi til að taka framförum."

Lucas Leiva lék 41 leiki á síðasta keppnistímabili og skoraði eitt mark. Alls hefur hann nú leikið 168 með Liverpool og skorað sex mörk. Það má telja líklegt að Lucas eigi eftir að leika lykilhlutverk á næstu leiktíðum hjá Liverpool. Að minnsta kosti hefur hann tekið framförum jafnt og þétt síðustu tvö árin eða svo og fáir sýnt meiri stöðugleika.
 
Sf. Gutt.

 

TIL BAKA