)

Sander Westerveld

Ekki var árangur síðustu viku neitt til að hrópa húrra fyrir en þó getur einn leikmaður borið höfuðið hátt. Það er markvörðurinn Sander Westerveld en hann kom á ótrúlegan hátt í veg fyrir mark í leiknum gegn Middlesborough og hefur verið mjög traustur í undanförnum leikjum þegar aftasta línan hefur gefið fá færi á sér. Westerveld var gagnrýndur nokkuð fyrir slaka frammistöðu á upphafsmánuðum tímabilsins en hefur hrist allt slíkt af sér og sýnt góðan leik.

Gerard Houllier hefur einnig staðfest traust sitt á honum um leið og hann vísaði á bug orðrómi um að Liverpool væri að leita að öðrum markverði í stað Westervelds. Hann segir Westerveld aftur kominn í sitt besta form. "Ég er mjög ánægður með Sander. Hann er að gera mjög vel. En Sander er fyrstur til að viðurkenna að byrjun tímabilsins var ekki sú besta hjá honum. Þegar fjölmiðlarnir voru að gagnrýna hann hvað mest í byrjun tímabilsins fannst mér þeir að sumu leyti hafa rétt á því því hann var ekki að leika nógu vel. En síðan þá hefur hann tekið sig á, lagt hart að sér og virðist kominn á okkar leið aftur. Ég er ánægður með hann, leikmennirnir fyrir framan hann bera sama traust til hans og ég og ég held að gagnrýnin á hann núna sé ósanngjörn. Hann hefur sýnt karakter, hann er einbeittari og ákveðnari og hefur varið mikilvæg skot."

TIL BAKA