Robbie Fowler
Liverpool hafði Keegan, Dalglish og Barnes sem gátu bæði lagt upp mörk og skorað þau og oftar en ekki gerðu gæfumuninn um hvort að Liverpool stæði upp sem sigurvegari eða ekki. Liverpool hefur aldrei fagnað meistaratitli með Robbie Fowler innanborðs en hingað til hefur hann verið frekar þekktur fyrir að skora mörk en að skapa þau fyrir aðra. Fowler virðist nú orðinn betri alhliða leikmaður og ef svo heldur fram sem horfir þá gæti hann orðið sá lykilmaður sem Liverpool þarf til að hampa meistaratitli eða titlum næstu árin í ensku úrvalsdeildinni. Houllier var ánægður með framlag Fowler gegn West Ham og sér að það er komið að tímamótum á ferli hans: "Robbie er að hefja nýjan feril og að sjálfsögðu er ég stoltur af árangri hans. Þegar leikmaður á í erfiðleikum og efast um getu sína þá þarf hann á hjálp framkvæmdastjóra síns að halda. Framfarir hans síðustu tvo mánuði hafa verið ótrúlegar. Ég hika ekki við að fullyrða að Robbie hefur ekki leikið svo vel í langan tíma. Hann er að nálgast sitt besta form. Hann kláraði færin sín vel, hreyfingar hans voru góðar og sendingar hans nákvæmar. Ferill hans er kominn á skrið á ný." Fowler skoraði þrjú mörk reyndar gegn West Ham en dómarinn taldi að boltinn hafi farið yfir endalínuna áður en Smicer gaf á Fowler og hann skoraði sitt þriðja mark. Robbie var hógvær að venju en leyfði sér þó aðeins að láta glitta í húmorinn margfræga: "Vladimir sagði að þriðja markið hefði átt að gilda því að boltinn hafði aldrei farið útaf. Ég hefði skorað þrennu en ég á þegar svo mikið af boltum sem ég hef fengið þegar ég hef skorað þrennur. Pabbi minn yrði ekki ánægður með að fá fleiri bolta því að þeir taka svo mikið pláss. Menn hafa velt vöngum yfir því að undanförnu hvort að ég komist aftur í mitt besta form. Allavegna finnst mér að ég sé að nálgast mitt gamla form."