)

Michael Owen

Owen skoraði fimmtánda mark sitt á tímabilinu gegn Derby á sunnudaginn. Þetta var jafnframt þriðji leikurinn í röð sem hann skorar og greinilegt er að drengurinn er kominn í sitt besta form. Hann tók varnarmenn Porto í kennslustund í Evrópukeppninni í miðri viku og varnarmenn Derby áttu í mesta basli með hann og var hann óheppinn að bæta ekki við fleiri mörkum og tryggja Liverpool þrjú dýrmæt stig.

“Ég hef verið í fínu formi í síðustu tveimur leikjum. Það þarf ekki snilling til þess að reikna það út að eftir meiðsli þarftu nokkrar vikur til þess að ná þínu besta formi. En núna er ég kominn í fluggírinn. Ég get ekki beðið eftir næsta leik.”

Houllier segir það góðar fréttir fyrir félagið í heild sinni að Owen sé kominn á skrið: “Síðan Michael snéri aftur eftir meiðslin í leiknum gegn Sunderland þá hefur hann tekið örum framförum. Þegar hann nýtir hraða sinn gegn andstæðingunum er mjög erfitt fyrir þá að eiga við hann. Ég er mjög ánægður með núverandi form hans og það er greinilegt að hann er fullur sjálfstrausts inná vellinum.”

TIL BAKA