)

Nicolas Anelka

Nicolas Anelka sýndi "gamla" takta gegn Birmingham. Hann lagði upp seinna mark Michael Owen með því að bruna með boltann upp völlinn og gefa hann á hárréttu augnabliki til Owen. Hann skoraði svo sitt fyrsta mark Liverpool er hann skaut boltanum utan teigs neðst í fjærhornið beint fyrir framan The Kop. Frábært mark.

"Ég er dálítið stirður ennþá vegna þess að ég hef ekki leikið reglulega að undanförnu en um leið og ég kemst í mitt besta form þá fá aðdáendur Liverpool að sjá hinn raunverulega Nicolas Anelka. Aðdáendurnir hafa verið frábærir. Það er alltaf erfitt að fylla skarð framherja eins og Robbie Fowler en ég er spenntur að takast á við þá áskorun. Ég er ánægður með að vera kominn aftur til Englands og starfa með fólki sem hefur eins mikla trú á hæfileikum mínum og ég hef. Ef ég leik vel og sanna getu mína hjá Liverpool þá gæti vel verið farið svo að félagið myndi kaupa mig."

Phil Thompson var hæstánægður með samvinnu Anelka og Owen. "Nicolas Anelka átti frábæran leik. Hann lagði upp seinna mark Owen á glæsilegan hátt. Hann getur aðeins orðið betri sem er auðvitað spennandi kostur. Hann lagði mjög hart að sér og náði vel saman við Owen og miðjuna."

Anelka er bjartsýnn á framhaldið: "Er ég lít tilbaka þá hefði verið auðveldara fyrir mig að vera áfram hjá Arsenal og þroskast sem knattspyrnumaður undir stjórn Arsene Wenger. Ég var hamingjusamur hjá Arsenal en það voru margir þættir sem urðu til þess að ég yfirgaf félagið. Það var margt ósatt skrifað um mig í blöðunum en það heyrir nú fortíðinni til. Ég er þroskaðri núna og fótbolti er það eina sem hvetur mig til dáða. Ég er fullviss um að ég muni sanna getu mína."

TIL BAKA