Evrópumeistarar 1984

Liverpool lék fjórða skiptið til úrslita í Evrópukeppni Meistaraliða gegn AS Roma. Þess úrslitaleikur var afar sérstakur vegna þess að Roma naut þeirra forréttinda að leika á heimavelli á Ólympíuleikvangnum í Róm. Liðsmenn Roma voru hins vegar í fyrsta skipti að leika til úrslita en flestir leikmenn Liverpool höfðu séð þetta allt áður og vissu við hverju átti að búast en Roma þótti sigurstranglegra og hallaði mikið á Liverpool hjá veðmöngurunum. 70.000 áhorfendur fylltu leikvanginn 31. maí og gerðu 20.000 aðdáendur Liverpool sitt besta til að styðja sína menn.

Liverpool - AS Roma 1-1 (4-2)

Lið Liverpool var skipað: 1. Bruce Grobbelaar, 2. Phil Neal, 3. Alan Kennedy, 4. Mark Lawrenson, 6. Alan Hansen - 5. Ronnie Whelan, 10. Craig Johnston, 11. Graeme Souness, 8. Sammy Lee - 7. Kenny Dalglish, 9. Ian Rush.

Bekkurinn: Bob Bolder, Steve Nicol (Johnston 70), David Hodgson, Gary Gillespie og Michael Robinson (Dalglish 94).

Lið Roma var byggt upp á sterkri vörn eins og Ítala er siður og þegar sóknarfæri gafst þá voru engir aukvisar framar á vellinum. Brassarnir og HM-stjörnurnar Cerezo og Falcao, heimsmeistararnir Conti og Graziani og markakóngurinn Pruzzo. Leikstjórnandinn Di Bartolomei var fyrirliði.

Leikurinn hófst á því að Falcao reyndi að feta í fótspor landa síns Pele með því að reyna að skora frá miðju nánast með upphafsspyrnu leiksins. Graeme Souness reyndi að hafa stjórn á miðjunni en leikurinn var eftirminnilegur fyrir hann fyrir margra hluta sakir en helst þó vegna þess að þetta var síðasti leikur hans í treyju Liverpool. Strax á 15. mínútu átti Whelan háa sendingu fyrir markið en markvörður Roma, Tancredi, náði ekki að grípa boltann og boltinn barst til Phil Neal hægri bakvarðar og hann setti boltann af öryggi í netið 0-1. Souness bætti við öðru marki síðar en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Roma fór að sækja sig í veðrið og gerðu kantmenn Roma Conti og Graziani þeim Kennedy og Neal lífið leitt. Liverpool átti meira í fyrri hálfleiknum en rétt fyrir leikhlé átti Conti sendingu frá vinstri kanti á hausinn á markamaskínunni Roberto Pruzzo og hann skallaði boltann í boga yfir Grobbelaar. Staðan 1-1 í hálfleik.

Roma byrjaði síðari hálfleik af krafti en þá tók Liverpool völdin að nýju en þrátt fyrir ágætis færi var ekkert skorað í næstu 75 mínútur. Taugar leikmanna voru þandar til hins ítrasta, í fyrsta skipti í sögu Evrópukeppninnar eftir breytta reglugerð var komið að því að útkljá keppnina með vítaspyrnukeppni. Rómverjar unnu uppkastið og fóru herlegheitin fram fyrir skara Rómaaðdáenda fyrir aftan markið. Steve Nicol var reynslulítill á þessum vettvangi en bað um að fá að taka fyrsta vítið í stað Phil Neal en ekki leist Púllurum á blikuna þegar hann negldi hátt yfir. Graziani tók boltann og bjó sig undir að taka fyrsta víti Rómverja en vítaskytta Roma og fyrirliði Di Bartolomei tók boltann af honum og setti boltann á punktinn að nýju. Hann tók vítið á sinn Kennedy fagnar sigurmarki sínusérstaka hátt með því að taka aðeins tvö skref áður en hann setti boltann af öryggi af netið. Vítaskytta Liverpool Phil Neal jafnaði metin og þá var komið að leikþætti Bruce Grobbelaar. Hann minntist orða Joe Fagan fyrir framlenginguna: "Hvað sem þú gerir sjáðu bara til að þess að þú truflir þá nægilega mikið." Grobbi setti hendurnar á hné sér og svissaði þeim fram og aftur eins og trúður. Einbeiting Conti var rofin og hann skaut hátt yfir. Souness setti boltann af einstöku öryggi í skeytin, Righetti breytti stöðunni í 2-2, Rush rúllaði boltanum í netið, Grobbelaar tók þá aftur til sinna ráða og snéri baki í Graziani og beit í netmöskvana. Hann þóttist síðan skjálfa á hnjánum er Graziani gerði sig reiðubúinn til að taka spyrnuna og það dugði aftur til, skot hans rétt sleikti slánna. Staðan 2-3 og aðeins ein spyrna eftir á lið þannig að Alan Kennedy gat tryggt Liverpool sigurinn. Hann hafði aldrei tekið víti fyrir Liverpool í kappleik en var alls óhræddur. Spennan var rafmögnuð en Kennedy lét það ekki á sig fá og skaut boltanum í mitt hornið hægra megin við markvörðinn og ærðist að sjálfsögðu af fögnuði. Kennedy sagði í viðtölum eftir leikinn að hann hefði verið sjálfsöryggið uppmálað: "Ég tók víti á æfingu tveim dögum áður og setti boltann á nákvæmlega sama stað, akkúrat eins og núna."

Evrópumeistaratitillinn var í höfn í fjórða skipti og var Real Madrid eina liðið sem hafði unnið oftar eða alls sex sinnum.

TIL BAKA