Emlyn Hughes

Shanks sá Emlyn fyrst spila með Blackpool keppnistímabilið 1965-66 í einum af fyrstu leikjum hans og bauð 25.000 pund í hann á staðnum en var hafnað en hann lét sér ekki segjast og fékk sinn mann þegar hann var orðinn nítján ára gamall í mars 1967 fyrir 65.000 pund. En til þess að Hughes gæti spilað í næsta leik þurfti að skrá hann sem leikmann Liverpool í tæka tíð en ekki var mikill tími til stefnu. Hughes tekur upp þráðinn: "Ég og Shanks stukkum upp í bílinn hans og keyrðum af stað. Þetta var aðeins um tíu mínútna akstur en Shanks er versti bílstjóri í heiminum. Einhver kerling keyrði aftan á okkur í öllum látunum og eyðilagði afturljósin á bílnum hans. Þau skiptust á símanúmerum og svo héldum við áfram þangað til lögreglan stöðvaði för okkar. Löggan sagði að við gætum ekki haldið áfram með brotin afturljós, bíllinn væri ólöglegur. Shanks skýrði út fyrir honum hvað hefði gerst en löggan stóð fast á sínu. Shanks brást þolinmæðin og spurði hann hvort hann vissi hver væri í þessum bíl. Hughes hélt að nú væri Shanks að setja sig á háan hest en sú var ekki raunin. "Nei", svaraði löggan, "ég veit ekki hver þú ert". "Ekki ég, aulinn þinn. Ég er með framtíðarfyrirliða enska landsliðsins hérna við hliðina á mér". Þetta sýnir hæfileika Shanks sem og aðrar sögur hversu glöggur hann var á leikmenn og hve mikla trú hann hafði á þeim leikmönnum sem hann keypti og var Hughes engin undantekning. Kop fékk fljótlega dálæti á Emlyn vegna baráttugleði sinnar og fékk viðurnefnið "Crazy Horse" eða "Ótemjan" eftir að hann rúgbýtæklaði framherja Newcastle Albert Bennet sem var að sleppa framhjá honum í fimmta leik sínum með Liverpool.

 

 

Emlyn hóf ferillinn á miðjunni og lék þar í nokkur ár áður  en hann var færður í stöðu miðvarðar og varð jafnframt fyrirliði liðsins árið 1973. Hughes og Phil Thompson þóttu skapa nýja gerð miðvarðapars sem byggði upp sóknir úr öftustu vörn með sendingum á miðjumennina í stað þess að senda langar sendingar fram. Hughes var mjög skotfastur og flest 35 marka hans voru skoruð með bylmingsskotum af löngu færi. Hann var mikill leiðtogi og leikgleði hans smitaði út frá sér. Það var öllum ljóst að hann gaf sig 120% í leikinn og hann var í miklu uppáhaldi hjá Shanks. Emlyn hélt fyrirliðabandinu þegar Paisley tók við og átti einkar farsælan feril sem fyrirliði: 3 meistaratitlar, F.A.Cup, Evrópubikar Félagsliða og 2 Evrópumeistaratitlar. Hann lék 23 landsleiki sem fyrirliði Englendinga (Shankly reyndist sannspár) og hefur ætíð verið umdeildur fyrir hreinskilnar skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Hann gekk jafnvel svo langt þegar hann var fyrirliði landsliðsins að rífast í aðalritara enska knattspyrnusambandsins þegar hann var að taka í höndina á leikmönnum fyrir landsleik, deiluefnið var brottrekstur þjálfarans Sir Alf Ramsey. Hughes naut þess ætíð að leika gegn erkifjendunum í Everton og stærir sig jafnan af því að hafa skorað alls fjögur mörk gegn þeim. Hughes tók við Evrópubikarnum tvisvar 1977 og 1978. Hann fór til Wolves 1979-1980 og tók við deildarbikarnum 1980 sem fyrirliði liðsins. Hughes hafði þá tekið við öllum bikurum sem hægt var að vinna á Englandi.

TIL BAKA