Don Welsh

Don Welsh flutti frá Brighton á suðurströnd Englands til að taka við liði Liverpool í mars 1951. Don hafði leikið reglulega með liði Liverpool á stríðstímum sem gestaleikmaður enda enginn aukvisi í boltanum. Welsh hóf feril sinn sem framkvæmdastjóri Brighton & Hove Albion í nóvember 1947, aðeins 36 ára að aldri. Brighton endaði á botni suðurriðils 3. deildar 1947-48 tímabilið en í þá daga féllu lið ekki sjálfkrafa úr deildarkeppninni þrátt fyrir að hafa vermt botnsætið. Brighton bætti sig undir stjórn Welsh og náði 6. og 8. sæti áður en kallið frá Liverpool kom.

Því miður erfði Don Liverpool-lið sem var staðnað um miðbik 1. deildar og stjórn sem virtist ekki mjög metnaðarfull. Liðið reiddi sig of mikið á Billy Liddell svo mikið að liðið gekk undir nafninu “Liddellpool”. Jafnvel Liddell gat ekki stöðvað hrun Liverpool niður töfluna og fall niður í 2. deild 1953/54 tímabilið með aðeins níu sigra innanborðs og 28 stig.

Don eyddi miklum peningum í leikmenn á þessum tíma en stjórnin var ekki sannfærð um dómgreind og ágæti hans sem stjóra og hann var rekinn í lok 1955/56 tímabilsins.

TIL BAKA