John McKenna og William E Barclay
Árið 1892 upphófust deilur stjórnar Everton við sinn eigin forseta John Houlding, um leiguna á Anfield. John var í þeirri einkennilegu stöðu að eiga hlut í landsvæðinu sem Anfield var byggt á. Niðurstaðan varð sú að Everton flutti frá Anfield með allt sitt hafurtask og hóf leik á Goodison Park, handan Stanley Park garðsins. John Houlding lagði aldeilis ekki árar í bát og stofnaði sitt eigið knattspyrnufélag. William E. Barclay, fyrrum ritari Everton, og Írinn "hinn heiðarlegi" John McKenna voru hliðhollir Houlding og voru ráðnir til að stjórna nýja liðinu. McKenna var öllu ábyrgari gagnvart frammistöðu liðsins á vellinum. Hann fékk 500 sterlingspund frá John Houlding til að byggja upp lið og hann hélt rakleiðis til Skotlands þar sem hann keypti 13 Skota og af því leiddi að Liverpool var kallað "Lið Makkanna" (Team of all the Macs) því að föðurnöfn þeirra flestra hófust á Mc.
Liverpool sótti um inngöngu í ensku deildarkeppnina en var hafnað og léku því í Lancashire-héraðsdeildinni til að byrja með. Þann 3. september árið 1892 lék Liverpool fyrsta kappleik sinn í Lancashiredeildinni fyrir framan 200 áhorfendur. Andstæðingarnir voru Higher Walton og aftur vann Liverpool stórsigur 8:0. Frábær frammistaða þessa nýstofnaða liðs spurðist út. Það var varla að þeir Houlding og McKenna trúðu sínum eigin augum þegar 3.000 áhorfendur mættu á Anfield 10. september er Liverpool bar sigurorð af Stockport og fór á topp deildarinnar. Menn höfðu verið efins um að nægur áhugi væri í borginni til að halda uppi tveimur liðum en Liverpool fór mikinn í leikjum tímabilsins og vann auðveldan sigur í Lancashire-deildinni.
Vera Liverpool í Lancashiredeildinni stóð aðeins yfir í eitt tímabil. Knattspyrnusambandið ákvað að fjölga liðum í 2. deild úr 12 í 15 og McKenna sá gullið tækifæri til að Liverpool gæti loksins keppt á landsvísu. Félagið átti ekki fúlgur fjár enda meðaláhorfendafjöldi á Anfield rétt undir 2.000 manns. McKenna sendi símskeyti til London án þess að fá til þess tilskilin leyfi frá stjórn Liverpool: "Liverpool sækir um þátttökurétt í 2. deild" og skrifaði undir Barclay sem var opinber framkvæmdastjóri liðsins. Það hefur því komið William E Barclay talsvert á óvart er honum barst skeyti frá Knattspyrnusambandinu: "Liverpool varð fyrir valinu. Komið til London á morgun klukkan þrjú til að ákveða leikjaniðurröðun". John McKenna sannfærði stjórnarmenn um að þetta væri rétta leiðin og fór til London sem fulltrúi félagsins til þess að ganga frá formsatriðum.Lið Liverpool tímabilið 1893-94. Fyrir miðju sitja frá vinstri John McKenna, John Houlding og William E Barclay.
Liverpool var ekki stöðvað þetta tímabil og hreppti efsta sæti 2. deildar án þess að tapa leik sem var einstakt afrek. Styrkleikamunurinn á deildunum var mikill og fór ekki betur en svo að félagið hrapaði í 2. deild á ný vorið 1895. En liðið fór beinustu leið upp aftur. Liðið fór á kostum í 2. deildinni leiktíðina 1895-96 og setti fjölmörg met í markaskorun og sum þeirra standa enn. Liðsmenn gengu berserksgang við mörk andstæðinga sinna og alls skoraði liðið 106 mörk í aðeins 30 leikjum. Þetta er enn met yfir skoruð deildarmörk á einni leiktíð hjá félaginu. Tíu sinnum skoraði liðið fimm mörk eða fleiri í leik. Á þessari leiktíð vann Liverpool sinn stærsta sigur í deildarleik þegar liðið lagði Rotherham 10:1 á Anfield þann 18. febrúar 1896. McKenna fór á stúfana um vorið og sannfærði einn hæfasta framkvæmdastjórann í ensku knattspyrnunni, mann að nafni Tom Watson, til að taka einn við stjórnartaumum liðsins. Það reyndist mikið happaskref í sögu félagsins. John McKenna gerðist ráðsettur stjórnarformaður, sannfærður um að liðið væri í góðum höndum.