Gordon Hodgson
Gordon Hodgson fæddist í Jóhannesarborg í Suður Afríku 16. apríl 1904. Árið 1925 var hann á Englandi í keppnisferð með knattspyrnuliði frá Suður-Afríku. Nokkrir úr liði hans vöktu athygli og hann og tveir félagar hans Arthur Riley og James Gray gengu til liðs við Liverpool. Gordon var stór, sterkur og mjög fljótur sóknarmaður. Hann varð sjö sinnum markakóngur liðsins í deildinni en alls lék hann 10 leiktíðir fyrir Liverpool. Besta leiktíð hans var 1930-31 en þá skoraði hann 36 deildarmörk sem var félagsmet. Það met stóð til 1961-62 þegar Roger Hunt sló það. Hodgson skoraði 232 deildarmörk sem var félagsmet þangað til Hunt sló það met einnig rúmum þrjátíu árum síðar. Liverpool var ekki með mjög sterkt lið á þessum árum og afrek Gordons því enn merkilegra fyrir vikið. Í sterkara liði hefði hann eflaust skorað mun fleiri mörk. Hann lék þrjá landsleiki fyrir England og skoraði eitt mark. Gordon lék krikket með mjög góðum árangri og þótti líka góður í hafnarbolta. Talið var að hann hefði getað náð langt í báðum þeim greinum ef hann hefði lagt þær fyrir sig.