Roger Hunt

Roger Hunt gekk til liðs við Liverpool sumarið 1959 21 árs að aldri eftir að hafa gengt herþjónustu í flughernum. Hann var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool 9. september 1959 gegn Scunthorpe á Anfield Road í forföllum goðsins Billy Liddell. Roger hafði þá aðeins fimm varaliðsleiki að baki en Phil Taylor stjóri Liverpool var óhræddur við að gefa honum tækifæri. Liverpool vann leikinn 2:0 og Roger skoraði sitt fyrsta mark. Markið kom í síðari hálfleik og var glæsilegt þrumuskot utan úr vítateignum þversláin inn. Roger fékk góða dóma fyrir sinn fyrsta leik og vann sér fljótlega sæti í liðinu. Um vorið 1960 hafði hann skorað 21 mark. Liverpool var nú undir stjórn Bill Shankly og þrátt fyrir að liðið kæmist ekki upp í fyrstu deild vorið 1961 gat ekkert stöðvað liðið leiktíðina 1961-62. Roger fékk nýjan félaga í sóknina fyrir leiktíðina þegar Bill keypti Skotann Ian St John. Þeir félagar náðu frábærlega saman. Ian skoraði 18 mörk en Roger var óstöðvandi og setti met yfir deildarmörk á einu tímabili hjá Liverpool þegar hann skoraði 41 mark í jafnmörgum leikjum. Fimm sinnum skoraði hann þrennu og stendur það met enn. Fyrra metið átti Gordon Hodgson þegar hann skoraði 36 mörk leiktíðina 1930-31. Liverpool var komið í fyrstu deild og nú hófst sigurgangan. Roger komst í landsliðið og lék sinn fyrsta landsleik vorið 1962 þegar enskir lögðu Austurríki 3:1 á Wembley. Roger skoraði eitt mark. Hann fór með enska landsliðinu í úrslitakeppni HM í Chile um sumarið en lék ekki með.

Liverpool varð enskur meistari 1963-64 og Roger skoraði 31 mark í deildinni á leiktíðinni. Leiktíðina 1964-65 vann Liverpool F.A. bikarinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Mótherjanir í úrslitunum voru Leeds. Eftir markalausan leik hófst framlenging. Roger kom Liverpool yfir með skalla frá markteig eftir að bakvörðurinn Gerry Byrne hafði gefið fyrir. Gerry lék viðbeinsbrotinn til loka framlengingar eftir að hafa lent í samstuði á upphafsmínútum venjulegs leiktíma. Billy Bremner jafnaði fyrir Leeds. En Ian St John skoraði sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf Ian Callaghan. Roger hafði mikið uppáhald á markinu gegn Leeds og í lok ferils síns taldi hann það eitt af eftirminnilegustu mörkum sínum. Gríðarlegur fögnuður var eftir leikinn hjá áhagendum Liverpool en leikmenn fengu lítinn tíma til að fagna því næsti leikur var í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða gegn Inter Milan á Anfield Road. Áhangendur Liverpool troðfylltu Anfield löngu fyrir leik og hvöttu liðið sem aldrei fyrr og sjaldan hefur meiri stemming verið í Musterinu. Roger skoraði eitt sitt fallegasta mark með viðstöðulausu bylmingsskoti skoti utan úr vítateignum og Liverpool vann 3:1. Því miður dugði það ekki og Inter vann 3:0 á heimavelli sínum. Bill og leikmenn Liverpool voru brjálaðir út í dómarann en það þýddi ekkert að fást um vafasama dóma og Liverpool var úr leik. Liverpool varð enskur meistari 1965-66 og Roger lagði sitt af mörkum með því að skora 30 sinnum í deildinni. Liverpool komst að auki í úrslit Evrópukeppni Bikarhafa gegn Borussia Dortmund á Hampden Park í Glasgow. Þjóðverjarnir komust yfir en Roger jafnaði. En Dortmund vann 2:1 eftir að hafa skora heppnismark sem reyndist sigurmarkið í framlengingu. Skot lengst utan af velli fór í þverslá og þaðan í Ron Yeats sem vissi ekkert um boltann og í markið.

Sumarið 1966 var úrslitakeppni HM haldin á Englandi. Roger, Ian Callaghan og Gerry Byrne voru fulltrúar Liverpool í enska hópnum. Til að gera langa sögu stutta urðu Englendinga heimsmeistararar eftir að hafa sigrað Vestur Þjóðverja 4:2 í úrslitum. Roger lék alla átta leiki Englendinga í keppninni og lagði sitt af mörkum til heimsmeistaratitilsins með þremur mörkum. Hann skoraði eitt í 2:0 sigri á Mexíkó og bæði mörkin í 2:0 sigri á Frökkum. Roger lék alls 34 leiki og skoraði 18 mörk fyrir landsliðið og tapaði aðeins tveimur af leikjum sem hann lék með í. Á landsliðsferli sínum mátti Roger af óskiljanlegum ástæðum búa við mjög ósanngjarna gagnrýni af þeim sem vildu frekar hafa leikmenn liða úr London í liðinu. Honum leiddist skiljanlega ástandið og árið 1969 ákvað Roger að gefa ekki oftar kost á sér með landsliðinu.

Roger hélt uppteknum hætti og raðaði inn mörkum jafnt og þétt. Í janúar 1969 sló hann markamet Gordon Hodgson fyrir Liverpool sem hafði staðið frá því fyrir seinni heimsstyrjöldina. Liverpool vann Chelsea 1:2 á útivelli og Roger skoraði annað markið sem tryggði honum metið. Undir lok ársins 1969 var ferill Roger á Anfield Road á enda. Í desember það ár var hann seldur til liðsins sem hann studdi í æsku Bolton Wanderes fyrir 32.000 sterlingspund. Þar lauk hann ferlinum 1972.

Þann 11. apríl 1972 sneri Roger aftur á Anfield Road. Félagið hélt ágóðaleik fyrir goðið. Það var kalt í veðri og hellirigning. Þrátt fyrir óhagstætt veður tróðu 56.000 áhorfendur sér inn á Anfield Road og þúsundir komust ekki að. Aldrei hafa fleiri sótt ágóðaleik á Anfield. Áhagendur Liverpool voru að hylla riddarann sinn Sir Roger en þá nafnbót fékk hann frá The Kop eftir heimsmeistarakeppnina 1966. Roger var steinhissa og hrærður þegar hann gekk út á völlinn. Hann og Bill Shankly gengu að The Kop og allir á vellinum sungu You´ll Never Walk Alone. Bill sagði við Roger þegar þeir stóðu saman fyrir framan The Kop að svona móttökur ætti enginn annar eftir að fá á Anfield Road.

Roger var fullkominn sóknarmaður. Hann var eldfljótur, sterkur, skotfastur og hafði góða boltatækni. Hann var vinnuþjarkur og gafst aldrei upp í leikjum þótt illa gengi. Vinnuframlag hans til liðsins var ómælt. Bill Shankly gaf honum góða einkunn: "Hann var hlédrægur en lék af mikilli skapfestu og dug. Það sýndi hann best með því að leika með uppbrettar ermar. Það er oft talað um að bretta upp ermarnar í þeirri meiningu að leggja sig fram við vinnu sína. Roger var lifandi sönnun þess". En Roger var alltaf hlédrægur og gerði lítið úr afrekum sínum: "Markaskorarar fá gjarnan heiðurinn ef vel gengur. En ég hefði aldrei skorað jafn mörg mörk ef ég hefði ekki haft svona frábæra leikmenn með mér í liðinu". Roger sagði eitt sinn að þegar hann hóf ferilinn með Liverpool hafði hann verið sáttur við að skora eitt mark fyrir félagið en þegar hann yfirgaf Anfield átti hann öll markamet Liverpool og hafði skorað 285 mörk í öllum keppnum. Ian Rush sló metin hans eitt af öðru en tvö standa enn. Roger á met í skoruðum deildarmörkum 245 og 41 deildarmark á einni leiktíð er líka met. Hann var markakóngur Liverpool í deildinni níu sinnum þar af átta sinnum í röð frá 1962 til 1969.

Um aldarmótin var ákveðið að aðla Roger Hunt og leist kappanum vel á þau tíðindi: "Liverpoolbúar hafa kallað mig Sir Roger um langa hríð og nú hefur þetta heiti loks verið gert opinbert, þetta eru frábærar fréttir".

Á sjöunda áratugnum voru ótrúlegir tímar í Liverpool. Bæði Liverpool og Everton áttu frábær knattspyrnulið og tónlistin sem kom frá borginni var sú vinsælasta í víðri veröld. Roger Hunt var í raun holdgervingur Liverpool á þessum árum. Hann var sannkölluð hetja og goðsögn í lifandi lífi og tók við af Billy Liddell sem slíkur. Phil Thompson var að alast upp í Liverpool á þessum tíma. Hann sagði eitt sinn um Roger: "Markaskorun hans gerði hann að hetju heillar kynslóðar. Ég æfði í varaliðinu með Roger fyrir leiktíðina 1969-70. Mér hefði næstum verið sama þótt ég hefði aldrei leikið með Liverpool. Hvað sem yrði úr knattspyrnuferli mínum hefði ég alltaf getað sagt félögum mínum að ég hefði æft með Roger Hunt."

TIL BAKA