| Sf. Gutt

Algert andleysi!

Leikmenn Liverpool voru algerlega andlausir á Anfield Road þegar Birmingham City kom í heimsókn. Gestirnir pökkuðu í vörn. Liverpool átti engin svör við þeirri leikaðferð og náði varla að skapa sér færi. Þetta var slakasti leikur Liverpool í langan tíma. Þrátt fyrir að Liverpool sé í öðru sæti þá verða leikmenn liðsins að fara að taka sig saman í andlitinu eftir þrjú jafntefli í röð og í þeim leikjum hefur liðið bara skorað eitt mark.

Liverpool tók strax völdin á vellinum en það var bið á því að leikmenn liðsins næðu að opna sterka vörn Birmingham. Í raun átti Liverpool ekki eitt einasta almennilegt færi í hálfleiknum. Jermaine Pennant átti bestu marktilraunina en Maik Taylor blakaði boltanum yfir eftir langskot hans.

Leikmenn Liverpool hresstust aðeins í síðari hálfleik. Steven Gerrard átti skot, eftir hornspyrnu, sem Mehdi Nafti bjargaði á markteig.  Rétt á eftir þurfti Maik Tylor, markvörður Birmingham, loksins þurft að verja skot. Andriy Voronin náði þá boltanum af varnarmanni og skaut að marki utan teigs en Maik varði naumlega. Veruleg batamerki, á liði Liverpool, sáust þó ekki fyrr en Fernando Torres kom inn á fyrir Ryan Babel á 60. mínútu. Það færðist strax líf í sóknarleik Liverpool og ekki veitti af. Peter Crouch bættist svo í sóknina. Á 77. mínútu kom besta sókn Liverpool. Jermaine Pennant sendi fyrir frá hægri. Fernando Torres stökk upp og klippti boltann með hjólhestaspyrnu en því miður þá fór boltinn rétt yfir. Fernando sendi svo glæsilega hælspyrnu á Peter sem komst inn á teig en varnarmaður bjargaði. Tveimur mínútum fyrir leikslok skallaði Peter svo yfir úr góðu færi. Leiknum lauk með jafntefli án marka og gestirnir gengu sáttir af velli með gott dagsverk. Leikmenn Liverpool voru niðurdregnir og það máttu þeir vera eftir slakasta leik liðsins í langan tíma. En af hverju er Fernando Torres ekki hafður í byrjunarliði Liverpool í hverjum einasta leik? Ég hugsa að margir stuðningsmenn Liverpool hafi spurt sig þessarar spurningar eftir að leiknum lauk í dag.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher, Riise, Pennant (Finnan 87. mín.), Gerrard, Mascherano, Babel (Torres 60. mín.), Kuyt og Voronin (Crouch 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Sissoko.

Birmingham City: Taylor, Kelly, Djourou, Ridgewell, Queudrue, Larsson, Palacios (O´Connor 68. mín.), Nafti, Melendez (McSheffrey 13. mín.), Kapo og Jerome (Schmitz 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Kingson og Forssell.

Gul spjöld: Liam Ridgewell og Gary McSheffrey.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.215.

Maður leiksins: Javier Mascherano. Argentínumaðurinn var einn af fáum leikmönnum Liverpool sem var með lífsmarki. Hann var mjög duglegur og átti nokkrar frábærar tæklingar. Hann er alveg sérlega snjall í að ná boltanum af mótherjum sínum án þess að brjóta á þeim.

Álit Rafael Benítez: Auðvitað er maður vonsvikinn. Fyrir leikinn lá það fyrir að við verðum að vinna leik eins og þennan. Það sáu allir að við sóttum, sóttum, sóttum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Það er erfitt að skapa marktækifæri þegar mótherjarnir spila svona aftarlega á vellinum.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan