John Arne Riise í viðtali
John Arne Riise segist ekki hafa spilað eins vel og hann hefði viljað það sem af er tímabilinu. Hann segist ætla að leggja sig allan fram um að bæta sig eins og lesa má í eftirfarandi viðtali.
John Arne segist eiga eftir að gefa stuðningsmönnum félagsins meira til að gleðjast yfir en undanfarin sjö ár hafa stuðningsmennirnir spurt: Hvernig hann skoraði þetta mark?
Norðmaðurinn segist einnig vera meira og meira viss um að liðið nái að vinna titilinn á þessu tímabili og hann útskýrir einnig af hverju honum finnst gaman að mæta Bolton.
Sautján mörk í fjórum leikjum - liðinu hlýtur að líða þannig að það sé óstöðvandi um þessar mundir?
Já, þetta hefur snúist við. Við áttum í erfiðleikum með að skora mörk í nokkrum leikjum en við höfum sýnt að við erum komnir á rétta braut. Við höfum líka verið góðir varnarlega séð þannig að þetta er gott mál.
Eitthvað virðist hafa smollið - er ástæðan sú að nýju leikmennirnir voru ekki búnir að aðlagast eða er einhver önnur ástæða?
Ég held að við höfum spilað vel allt tímabili en ekki skorað nóg af mörkum. Um leið og við skoruðum nokkur þá komu fleiri í kjölfarið, líkt og í leiknum gegn Besiktas. Í hvert skipti sem við fórum fram þá skoruðum við. Auðvitað hafa nýju leikmennirnir þurft að aðlagast, en ég held að í raun séum við bara að sýna og sanna hversu góðir við erum.
Liðið virðist vera að skipta um gír núna - eigiði fleiri gíra til að skipta upp í?
Auðvitað er gott að sjá að við erum að spila vel og skora mörk en maður getur alltaf bætt sig. Við vitum þetta og, já, þá getum við orðið betri.
Tvö mörk í viðbót hjá Fernando Torres á miðvikudaginn - það er magnað að sjá hversu mikil áhrif hann hefur haft?
Já, og ég held að fólk hafi ekki enn séð það besta frá honum. Hann er frábær leikmaður - svo sterkur. Hann fær mikið af höggum í hverjum leik en hann stendur ávallt upp og gefur andstæðingunum högg á móti. Hann er mjög rólegur piltur en þegar hann er út á vellinum er hann bannvænn. Hann hefur hraða, kraft og hann getur skorað mörk. Hann er mjög mikilvægur fyrir okkur. Í síðustu leikjum hefur hann svo sannarlega sýnt það.
Er hann jafn góður á æfingum?
Ó já. Hann virðist ekki vera svo sterkur þegar maður horfir á hann, en hann notar líkamann mjög vel. Hann togar varnarmenn með sér og tæklar. Ég er ánægður með að hann sé með mér í liði og ég þarf ekki að spila gegn honum í leik.
Gæti hann verið síðasta púslið í púsluspilið sem verður til þess að Liverpool vinni deildina?
Ég vona það. Hann og nokkrir aðrir leikmenn, vegna þess að við erum með gott lið. En okkur hefur vantað leikmann sem getur skorað 20-25 mörk á tímabili. Það eru ekki bara mörkin hans samt. Ég held að varnarmenn séu hræddir við hann vegna hraða hans. Hann getur fengið tvo varnarmenn í sig og þannig skapað svæði fyrir annan samherja. Hann er í heimsklassa og það er erfitt að passa hann. Fernando gefur okkur styrk fram á við sem okkur hefur vantað í langan tíma og vonandi er hann síðasti bitinn í púslspilið sem verður til þess að við vinnum deildina.
Nú er þriðjungur búinn af tímabilinu, hvernig metur þú deildina og atlöguna að titlinum?
Við erum með en erum sex stigum á eftir Arsenal. Þeir virðast vera mjög sterkir, en við líka. Við höfum ekki tapað ennþá, reyndar höfum við gert of mörg jafntefli í leikjum sem við hefðum átt að vinna, sérstaklega heima gegn Birmingham og Tottenham. Það er óvenjulegt að við erum betri á útivelli en heima, en við erum vissir um að við getum haldið áfram og við erum líka vissir um að þetta verður spennandi í lokin.
Hver er ástæðan fyrir góðu gengi á útivöllum?
Við virðumst vera mjög þéttir, erfitt að sigra okkur. Við spilum sem lið og okkur virðist takast að þreyta andstæðinga okkar. Á sama tíma erum við að nýta færin. Ef maður skoðar Newcastle leikinn þá var það sennilega besta frammistaða okkar í langan tíma. Við hefðum jafnvel getað skorað átta mörk, sem er ótrúlegt gegn Newcastle á útivelli. Við höfum fundið leið til að spila á útivöllum og ég held að lið beri virkilega virðingu fyrir okkur nú.
Er núna besta tækifærið til að vinna deildina síðan þú komst til félagsins?
Þetta er besti hópur leikmanna síðan ég kom, já. Þetta er sjöunda tímabil mitt hér og ég hef aldrei verið eins viss um að við munum vinna deildina núna frekar en nokkurt annað tímabil. Ég held hinsvegar að hin liðin séu einnig betri nú.
Þú hefur unnið FA Bikara, Deildarbikara og Evrópubikara hjá Liverpool - hversu áfjáður persónulega ertu í það að bæta Deildarmeistaratitlinum í það safn?
Það eru nokkrir leikmenn í þessum hópi sem hafa unnið allt nema deildina. Deildin er öðruvísi, ekki bara fyrir okkur heldur líka stuðningsmennina. Það er langt síðan titilinn kom á Anfield. Að vera í baráttu um hann á hverju ári er gott, en við þurfum að taka síðasta skrefið til að sanna okkur. Ef það gerist á þessu ári, frábært, en ef ekki þá erum við ennþá með góða möguleika með þennan leikmannahóp.
Þið yrðuð algjörar goðsagnir í Liverpool ef þið mynduð vinna - er það eitthvað sem þú hugsar um?
Við hugsum ekki of mikið um að vera goðsagnir, við viljum bara vinna fyrir okkur sjálfa, fyrir liðið og stuðningsmennina. Þegar maður spilar með liði eins og Liverpool, með þessa sögu og stuðningsmennina, þá vill maður gefa eitthvað til baka. Jafnvel þegar leikmaður er ekki að spila uppá sitt besta, halda stuðningsmennirnir áfram að hvetja hann. Það má líka sjá þann stuðning sem Rafa er að fá, hann er ótrúlegur.
Næsti leikur er gegn Bolton, alltaf erfitt, líkamlegur leikur - ætlið þið að reyna að mæta því eða reyna að spila ykkar leik?
Stjórinn horfir alltaf á andstæðingana, styrk þeirra og veikleika, en þegar upp er staðið er það hvernig við spilum sem skiptir máli. Við verðum að nota veikleika þeirra og passa okkur, en maður verður að spila sinn leik og breyta honum ekki of mikið. Já, þeir eru líkamlega sterkir og við verðum að mæta því, en við verðum einnig að nota okkar gæði með boltann. Við erum betra lið þegar kemur að því að spila boltanum.
Þetta er þannig leikur að ef maður gefur sig ekki 100 prósent, þá er manni refsað?
Já. Ef maður er ekki tilbúinn að berjast þá er manni ekki við bjargandi. Þeir eru stórir og sterkir og við verðum að mæta því. Við verðum að vera tilbúnir. Þeir spiluðu á fimmtudaginn og hafa því ekki hvílst eins lengi og við, en þeir eru alltaf tilbúnir í slaginn.
Eru líkamlega sterk lið líkt og Bolton þeir leikir sem þú hlakkar til að spila í?
Ég hlakka mikið til vegna þess að þetta er hluti af mínum leik. Mér líkar ekki leikir þar sem maður gerir ekkert. Mér líkar vel að finna til þegar ég geng af velli og þegar ég er þreyttur eftir að hafa tæklað mikið. Það er það sem fótbolti snýst um. Það er frábær tilfinning að koma fr´aleik þar sem maður barðist og vann. Bolton leikurinn verður þannig leikur.
Staða liðanna í deildinni segir að þið eigið að sigra - sér þú það þannig?
Þeir hafa bætt sig undanfarið og þeir eru með nýjan stjóra, sem þýðir að hver einasti leikmaður vill sýna sig og sanna. Við vitum að þetta verður erfitt en við erum betra lið. Við verðum bara að sýna það. Við berum virðingu fyrir Bolton en þetta er svona leikur, ef maður ætlar að vinna deildina, þá verður maður að ná í þrjú stig.
Nicolas Anelka og El Hadji Diouf eru leikmenn sem þið þekkið vel frá því að þeir spiluðu með Liverpool - hversu hættulegir eru þeir?
Þeir eru fínir strákar og góðir leikmenn. Ég er hissa á því að Anelka skuli enn vera þarna því hann er frábær leikmaður og kannski vill hann fara til stærra félags. En Hann er að spila fyrir Bolton og skorar mörk. Nicolas er heimsklassa leikmaður og við verðum að passa hann, hann gæti skapað okkur vandræði. Diouf er Diouf: hann er fyndinn, spilar með mikilli gleði, hefur gríðarlega tækni og er einnig leikmaður sem getur unnið leiki. Við verðum að passa okkur. Ég fylgdist með Bolton í UEFA bikarnum og þeir voru hvíldir, þannig að kannski eru þeir að hugsa um leikinn við okkur.
Er meira lagt á sig þegar maður spilar gegn fyrrum liðsfélögum?
Já það má segja það. Báðir stóðu sig vel hjá Liverpool. Anelka skoraði nokkur mörk; Diouf var skrýtinn leikmaður en alltaf í góðu skapi. Okkur fannst alltaf gaman að spila gegn hvorum öðrum og að fylgjast með fyrrverandi liðsfélögum er gaman, en vináttan gleymist um leið og út á völlin er komið.
Það er þröngt á toppnum eins og þú segir - þá má enginn við því að misstíga sig á næstu mánuðum, er það?
Nei, sérstaklega ekki þegar við erum aðeins á eftir. Við verðum að vona að toppliðin tapi leikjum og við megum ekki misstíga okkur, við verðum að halda áfram að vinna. Ef við spilum eins og við höfum gert þá munum við halda áfram að vinna og þetta verður spennandi í lokin. Það eru nokkrir stórleikir á næstunni, toppliðin mæta hvort öðru og allt getur gerst. Við verðum að vera tilbúnir og nýta okkur það þegar t.d. Man Utd og Arsenal tapa.
Það er svo mikil samkeppni um stöður vinstra megin núna - þú hefur ekki spilað síðustu tvo leiki. Er þetta pirrandi eða líkar þér áskorunin ?
Fyrir síðustu tvo leiki hafði ég spilað í tíu leikjum í röð eða eitthvað álíka. Við vitum að þetta verður svona allt tímabili. Þetta er samkeppni. Við höfum svo marga vinstri bakverði og vinstri kantmenn að það er ekki fyndið: Harry er að koma til baka og Fabio líka þannig að við höfum þrjá vinstri bakverði og þrjá kantmenn. Það er ekki auðvelt að halda sæti sínu en þannig er samkeppnin, þannig á þetta að vera. Ég held að ég eigi eftir að spila fullt af leikjum og mun vera ánægður.
Hvernig metur þú eigin frammistöðu þetta tímabil?
Mér leið mjög vel á undirbúningstímabilinu, ég var mjög beittur. Ég held að ég hafi byrjað leiktíðina ekki í mínu besta formi. Ég var ekki með sjálfstraustið í lagi og ekki upp á mitt besta, en síðustu sex eða sjö leiki fyrir landsleikjahléð þá var ég allur að koma til. Mér fannst eins og ég væri að endurheimta styrkinn og harðfylgni mína aftur og nú er ég tilbúinn að halda áfram. Ég veit að sumir stuðningsmenn hafa verið pirraðir á mér en þannig er það bara. Ég verð að snúa því við, vonandi strax á sunnudaginn. Stuðningsmennirnir vita að ég reyni að gefa 110% í þegar ég er út á vellinum, jafnvel þegar það lítur stundum ekki út fyrir það. Ég hef gefið stuðningsmönnunum ánægjustundir áður og ég get gert það aftur.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni