Leiktíðinni lauk með góðum sigri
Liverpool endaði leiktíðina með því að vinna góðan 2:0 útisigur á Tottenham Hotspur. Sigurinn var góður og sanngjarn. Hvítasunnan var því gleðileg fyrir stuðningsmenn Liverpool!
Það var búist við því að Rafael myndi kannski gefa einhverjum af varaliðsmeisturunum tækifæri í leiknum. Aðeins einn fékk tækifæri og það var Emiliano Insua en hann hélt sæti sínu frá því í leiknum við Manchester City um síðustu helgi. Ekkert sást til Peter Crouch frekar en um síðustu helgi. Það gerðist ekkert markvert lengi vel. Kannski var það hitanum um að kenna en það var mjög heitt í Lundúnum í dag. Liverpool var meira með boltann en það gerðist lítið uppi við mörkin. Um miðjan hálfleikinn kom fyrsta hættulega færið. Dimitar Berbatov átti þá skalla eftir hornspyrnu en Jose Reina varði vel. Ekkert hafði verið skorað þegar flautað var til hálfleiks.
Segja má að Liverpool hafi ráðið gangi mála mest allan síðari hálfleikinn. Snemma í hálfleiknum léku þeir Steven Gerrard og Fernando Torres laglega saman. Fernando skaut en Radek Cerny varði. Reyndar var heppnin með Tékkanum því Fernando skaut í hann. Heimamenn fengu gott færi á 60. mínútu. Steven Gerrard átti þá hroðalega sendingu rétt utan eigin teigs. Boltinn fór til Steed Malbranque sem komst inn á teig en skot hans fór framhjá. Liverpool tók forystu á 69. mínútu. Martin Skrtel sendi þá langa sendingu fram völlinn. Rétt utan við vítateiginn stökk Fernando hæst og skallaði boltann inn á teiginn. Andriy Voronin fékk boltann á miðjum teignum. Varnarmaður sótti að honum en Úkraínumaðurinn var sterkur fyrir og skoraði. Þremur mínútum seinna eða svo sýndi Jose Reina hvað í honum býr. Dimitar Berbatov átti þá fast skot að marki sem stefndi í markið en Jose sýndi frábæra snerpu og sló boltann yfir. Þetta kom sér vel því á 73. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. Varamaðurinn Yossi Benayoun sendi þá boltann fram á Fernando Torres sem fékk boltann inn á vítateiginn vinstra megin. Þar lék hann snilldarlega á Michael Dawson með frábærri gabbhreyfingu áður en hann renndi boltanum neðst í markhornið. Frábært mark! Þetta var 24. deildarmark "Stráksins" og hefur útlendingur aldrei skorað fleiri mörk í efstu deild á sinni fyrstu leiktíð. Þetta var 33. mark hans í öllum keppnum! Um leið var þetta 119. mark Liverpool í öllum keppnum og hefur ekkert lið á Englandi skorað fleiri mörk ef allar keppnir eru taldar. Mörk Liverpool hefðu getað orðið enn fleiri! Tíu mínútum fyrir leikslok munaði litlu að Fernando skoraði enn og aftur. Hann lyfti þá boltanum yfir Radek en boltinn hafnaði í þverslá. Radek gerði svo vel í að verja skalla frá sínum eigin liðsmanni. Yossi Benayoun hefði átt að ná þriðja markinu en hælspyrna hans, fyrir miðju marki, fór framhjá. Hann var heldur kærulaus þar Ísraelsmaðurinn. Öruggur sigur Liverpool var í höfn og leiktíðinni lauk með góðum sigri!
Tottenham Hotspur: Cerny, Hutton, Dawson (Bent 75. mín.), Woodgate, Gilberto, Malbranque, Jenas (Huddlestone 46. mín.), Zokora, O´Hara (Tainio 46. mín.), Berbatov og Keane. Ónotaðir varamenn: Robinson og Chimbonda.
Gult spjald: Alan Hutton.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Insua, Kuyt (Leiva 80. mín.), Gerrard, Mascherano, Babel (Benayoun 59. mín.), Torres og Voronin (Finnan 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.
Mörk Liverpool: Andriy Voronin (69. mín.) og Fernando Torres (73. mín.).
Gult spjald: Emiliano Insua.
Áhorfendur á White Hart Lanet: 36.063.
Maður leiksins: Fernando Torres. Þessi magnaði Spánverji endaði leiktíðina með því að leggja upp fyrra mark Liverpool og skora svo sjálfur seinna markið. Það mark var alveg frábært og sýndi hvers konar hæfileikum hann býr yfir.
Álit Rafael Benítez: Við vissum að fjöldi stuðningsmanna okkar væri hér og við vildum vinna leikinn fyrir þá. Við sköpuðum okkur fullt af færum og hefðum getað skorað fleiri mörk. Fyrri hálfleikurinn tók aðeins á taugarnar en sá seinni var miklu betri og við verðskulduðum sigurinn.
Ekki veit ég hvort Liverpool hefur áður leikið á hvítasunnudegi en hún er vanalega seinna á ferðinni. En páskarnir voru núna óvenju snemma á ferðinni eins og allir vita. Hvað um það. Liverpool vann! Ætli sé ekki rétt að segja að sigurinn lofi góðu fyrir næstu leiktíð. Að minnsta kosti má segja að Liverpool hafi endað leiktíðina vel í deildinni. Það segir sína sögu að liðið tapaði aðeins einum deildarleik frá lok janúar. Meistaraform hefði einhver sagt og vonandi endist það alla næstu leiktíð!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!