| Sf. Gutt

Steven Gerrard fer í aðgerð

Steven Gerrad spilaði sinn síðasta leik í bili gegn Standard Liege í gærkvöldi. Hann fer nú í aðgerð á nára og verður frá leik og keppni í allt upp í hálfan mánuð. Rafael Benítez hafði þetta að segja eftir leikinn í gærkvöldi. "Steven er vondur í nára og þarf að fara í aðgerð. Hann gæti orðið frá í 10 til 15 daga. Meiðslin eru ekki alvarleg en það þarf að laga þau. Hann er búinn að vera að spila þjáður og ekki verið alveg heill. Við ræddum við lækninn í gær og í dag var ákveðið að Steven myndi spila þennan leik þótt hann fyndi til. En núna þarf að koma þessu í lag."

Steven Gerrard er búinn að eiga í þessum meiðslum frá því á æfingatímabilinu. Hann fór meiddur heim til Liverpool þegar liðið var í æfingabúðunum í Sviss. Hann byrjaði svo að spila aftur en fór meiddur af velli gegn Vålerenga í Osló. Steven kom aftur til leiks sem varamaður í fyrri leik Liverpool og Standard Liege og hefur spilað alla leiki síðan.

Steven mun missa af leik Liverpool og Aston Villa á Villa Park um helgina. Næsti leikur er svo eftir landsleikjahlé við Manchester United á Anfield Road. Vonast er til að Steven verði orðinn leikfær þá en það er alls ekki öruggt. Mestu skiptir að hann nái sér almennilega af þessum meiðslum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan