Varnarmúr Stoke hélt!
Varnarmúr Stoke City stóðst öll áhlaup Rauða hersins. Það var sama hvernig leikmenn Liverpool reyndu ekkert gekk og leiknum lauk án marka. Eitt mark leit þó dagsins ljós en það var dæmt af af dularfullum ástæðum. Stigið kom Liverpool tímabundið á toppinn í deildinni en stuðningsmenn Liverpool fóru samt hálf vonsviknir heim því þeir höfðu reiknað með sigri í þessum leik.
Það virtist sem svo að Liverpool hefði fengið óskabyrjun á 2. mínútu. Steven Gerrard tók þá aukaspyrnu út frá vítateignum til vinstri. Hann sendi fallegt bogaskot inn að markinu og boltinn sveif yfir allt og alla og hafnaði í marknetinu upp í horninu fjær. Allt gekk af göflunum af fögnuði og ekki var gleði fyrirliðans minnst sem taldi sig hafa skorað 100. mark sitt fyrir Liverpool. En fögnuðurinn stóð stutt yfir því af einhverjum dularfullum ástæðum var markið dæmt af. Ekki verður hér reynt að geta sér til um hindranir eða rangstæðu því það var ekki hægt að sjá neitt að þessu glæsilega marki! Á 5. mínútu átti Paul Kitson skot rétt yfir mark Liverpool utan vítateigs og þetta var það næsta sem gestirnir komust því að skora. Hér eftir réðu leikmenn Liverpool lögum og lofum. Hver sóknin rak aðra en opin færi létu á sér standa. Á 7. mínútu lagði Dirk Kuyt boltann vel fyrir Robbie Keane en skot hans fór beint á danska landsliðsmarkvörðinn Thomas Sorensen. Á 28. mínútu varð Thomas að taka á honum stóra sínum þegar Xabi smellhitti boltann utan teigs eftir hornspyrnu. Daninn varði vel og sló boltann frá. Rétt fyrir hálfleik átti Xabi annað skot sem vörnin bjargaði. Xabi var óhræddur við að skjóta í leiknum en þau voru ekki nákvæm. Markalaust var í hálfleik.
Leikmenn Liverpool reyndu að auka kraftinn í sóknarleiknum eftir leikhlé og það virtist aðeins vera spurning um tíma hvenær Liverpool myndi skora. Leikmenn Stoke börðust þó eins og ljón staðráðnir í að fá ekki á sig mark hvað þá mörk. Þeir komust reyndar í færi strax í upphafi hálfleiksins en Liam Lawrence hitti ekki boltann óvaldaður við fjærstöngina. Á 51. mínútu virtist sem Robbie Keane myndi skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. Alvaro Arbeloa lék þá glæsilega inn í teig hægra megin og sendi fyrir markið. Robbie náði viðstöðulausu skoti en Thomas varði vel. Írinn hefði átt að skora þarna. Tveimur mínútum seinna lék Alvaro aftur upp og sendi góða sendingu fyrir. Fernando Torres stökk manna hæst en skalli hans fór hárfínt framhjá. Þar átti "Strákurinn" að skora! Á 64. mínútu sýndist flestum að Fernando myndi skora en varnarmaður náði að henda sér fyrir boltann og bjarga á ótrúlegan hátt. Nokkrum mínútum seinna komst Dirk í gott færi en Thomas varði skot hans vel. Rétt á eftir ógnaði Dirk aftur en gott bogaskot hans fór rétt framhjá. Á 70. mínútu tók Steven aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn. Líkt og í upphafi leiksins þá náði Steven góðu bogaskoti en nú fór boltinn rétt framhjá fjærstönginni. Tveimur mínútum seinna reyndi Jamie Carragher fyrir sér og bogskot hans utan teigs var ekki fjarri markinu. Sókn Liverpool var þung til leiksloka en það vantaði samt ákveðinn slagkraft í leikmenn Liverpool. Til leiksloka sótti Liverpool linnulítið en ekki tókst að skora þrátt fyrir að hurð skylli nokkrum sinnum nærri hælum við mark Stoke. Líklega væru leikmenn Liverpool enn ekki búnir að skora þó áfram hefði verið haldið. Leikmenn Stoke stóðu sig eins og hetjur og líklega voru fáir kátari en Salif Diao, fyrrum leikmaður Liverpool, þegar flautað var til leiksloka! Liverpool á að vinna leiki sem þennan en það hafðist bara ekki að þessu sinni!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Dossena, Kuyt, Gerrard, Alonso, Riera (Babel 65. mín.), Keane (Benayoun 73. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Mascherano, Leiva og Degen.
Gult spjald: Martin Skrtel.
Stoke City: Sorensen, Griffin, Abdoulaye Faye, Sonko (Cort 22. mín.), Higginbotham, Lawrence (Cresswell 66. mín.), Olofinjana, Diao, Delap, Kitson (Fuller 78. mín.) og Sidibe. Ónotaðir varamenn: Simonsen, Whelan, Tonge og Wilkinson.
Gult spjald: Ricardo Fuller.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.931.
Maður leiksins: Alvaro Arbeloa. Hægri bakvörðurinn lék einn besta leik sinn með Liverpool. Hann var mjög kraftmikill á hægri vængnum og lagði upp góð færi fyrir félaga sínum. Hann spilaði í raun eins og besti kantmaður.
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Alvaro Arbeloa.
Rafael Benítez: Við vorum mikið með boltann og reyndum allt hvað við gátum til að skora. Við sóttum upp báða kanta, upp miðjuna, áttum hornspyrnur, aukaspyrnur og langskot en við gátum bara ekki skorað. Svona er knattspyrnan stundum.
Fróðleiksmoli: Liverpool hefur aðeins skorað fimm mörk í þeim fimm deildarleikjum sem liðið hefur leikið á þessari leiktíð.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!