Keane er ekki á förum
Rafael Benítez vísar sögusögnum um það að Robbie Keane kunni að yfirgefa herbúðir Liverpool í janúar á bug í breskum fjölmiðlum í dag. Um helgina var greint frá því í breskum blöðum að Tottenham íhugaði að gera tilboð í kappann og endurheimta þar með þessa fyrrum hetju sína, eftir sex mánaða fjarveru, en í viðtali við Liverpool Daily Post segir Benítez að það sé af og frá að Keane muni hverfa á brott frá félaginu og hvetur jafnframt liðsfélaga hans til að hjálpa honum að fóta sig á Anfield.
Keane hefur ekki gengið sem skyldi að finna sig í sínum nýju heimkynnum og hefur einungis skorað fjögur mörk í 22 leikjum það sem af er tímabilinu. Hann var hafður á bekknum í 3-1 sigri Liverpool gegn Blackburn á laugardaginn en nú hefur Dirk Kuyt bæst á meiðslalista liðsins, þar sem Fernando Torres var fyrir, og því verður Keane enn á ný í byrjunarliðinu í kvöld þegar Liverpool mætir PSV Eindhoven í síðasta leiknum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Þó að Rafael Benítez viðurkenni að frammistaða Keane hafi vissulega verið ákveðin vonbrigði tekur hann skýrt fram að félagið hafi ekki í hyggju að losa sig við hann þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Hann segist raunar undrandi á orðrómi þess efnis.
,,Það fylgja því alltaf einhver vandamál þegar leikmaður skiptir um félag, það tekur tíma að aðlagast breyttum áherslum o.s.frv. Það er enn erfiðara þegar menn koma til toppliðs þar sem samkeppni um stöður er mikil, eins og raunin er hjá okkur. En Robbie er góður leikmaður og leggur hart að sér þannig að ég hef engar áhyggjur."
,,Að mínu viti er það lykilatriði að liðið spili vel, þá mun hann fá fleiri færi og skora fleiri mörk. Eins og stendur þá ganga hlutirnir ekki alveg að óskum, þannig að það er eðlilegt að hann sé eilítið vonsvikinn. Hann vill auðvitað alltaf spila, og finnst hann hreinlega þurfa þess. Ég held samt að hann viti að við höfum trú á honum, en hann veit líka að hann hefur ekki enn náð að leika af fullri getu."
,,Það er í raun ekki hægt að senda leikmanni í hans gæðaflokki of mörg skilaboð. Hann veit fullvel að hann verður að standa sig og hann mun gera það fyrr en síðar. Ég er mjög þolinmóður gagnvart Robbie, eins og öllum öðrum, og vonandi nær hann að sýna sitt rétta andlit áður en tímabilið er úti."
Keane kom ekkert við sögu í leiknum gegn Blackburn um helgina. Benítez tefldi fram þeim Dirk Kuyt og Ryan Babel í sókninni og þegar Babel var skipt útaf um miðjan síðari hálfleik varð Keane að gera sér að góðu að horfa upp á hinn unga Nabil El Zhar skokka inn á í stað Hollendingsins unga.
Þegar Benítez er spurður um ástæðuna fyrir því að Keane fékk ekki að spreyta sig, þrátt fyrir að liðinu gengi brösuglega að brjóta vörn Blackburn á bak aftur, segist hann vera orðinn þreyttur á því að svara fyrir það hvenær hann noti leikmanninn og hvenær ekki.
,,Það er mikið rætt um að Robbie hafi verið á bekknum gegn Blackburn, en því er til að svara að ég ákvað að spila með Kuyt frammi og Babel, sem er líka framherji, vinstra megin. Þegar ég síðan setti Nabil El Zhar inná var ég eingöngu að hugsa um ákveðið skipulag, en ekki einstaka leikmenn. Tevez skoraði fjögur mörk fyrir Manchester United í síðustu viku, en var svo á bekknum gegn Sunderland um helgina. Af einhverjum ástæðum vekur það ekki eins mikla athygli", bendir Benítez réttilega á.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum