Kærkominn sigur
Liverpool hristi af sér slyðruorðið eftir brotlendinguna í Middlesborough á laugardaginn með því að leggja Sunderland að velli 2:0 á Anfield Road í kvöld. Sigurinn var öruggur og hefði átt að vera enn stærri.
Eftir að hafa gert jafntefli og tapað í síðustu tveimur deildarleikjum varð Liverpool að leggja Sunderland að velli í kvöld. Ungliðarnir David Ngog og Emiliano Insua voru settir í byrjunarliðið en mesta athygli, í liðsuppstillingunni, vakti að Javier Mascherano lék sem hægri bakvörður!
Liverpool byrjaði ekki vel og Svörtu kettirnir fengu algert dauðafæri til að komast yfir á 4. mínútu. Kenwyne Jones lék þá á Martin Skrtel við miðjuna og komst aleinn í gegn. Jose Reina var einn til varnar og hann beið rólegur eftir sóknarmanninum. Jose stóð fastur fyrir og varði svo frábærlega með því að henda sér niður þegar Kenwyne var kominn inn á teig og skaut. Boltinn hrökk út og varnarmaður Liverpool kom boltanum frá áður en andstæðingur næði frákastinu. Frábær markvarsla hjá Jose sem sýndi þarna geysilega yfirvegun með því að lesa fyrirætlun sóknarmannsins. Þetta reyndist eina færi Sunderland í fyrri hálfleik og linnulítil sókn Liverpool tók við. Á 7. mínútu fékk David góða sendingu fyrir frá hægri en varnarmaður komst fyrir skot hans við markteiginn. Albert Riera, sem spilaði sinn besta leik í langan tíma, fékk svo boltann í kjölfarið og átti skot sem fór í hönd varnarmanns. Á 12. mínútu kom Dirk Kuyt sér í skotstöðu hægra megin fyrir utan teiginn en Marton Fulop varði vel. Færum fækkaði þegar leið á hálfleikinn og það næsta kom ekki fyrr en á 31. mínútu. Albert átti þá hörkuskot vinstra megin í teignum. Boltinn fór í varnarmann og breytti um stefnu en Marton gerði vel í að verja í horn. Litlu fyrir leikhlé náði Liverpool snöggri sókn sem endaði með því að Javier fékk boltann hægra megin í teignum en skot hans fór í hliðarnetið. Gestirnir voru ánægðir þegar flautað var til leikhlés að vera ekki undir en þeir nöguðu sig samt örugglega í handarbökin eftir að hafa ekki notað gullið færi til að komast yfir.
Liverpool fékk draumabyrjun eftir leikhlé. Albert Riera lék þá upp að endamörkum vinstra megin og sendi fyrir markið. Við fjærstöngina skallaði Steven Gerrard til baka fyrir markið og David Ngog stýrði boltanum í markið frá markteignum. Öllum var létt á Anfield og David naut þess sannarlega að skora fyrir framan The Kop. Þessi franski strákur á mikið eftir ólært og alls óvíst að hann komist í fremstu röð en hann stóð sig vel í þessum leik og það var gaman fyrir hann að skora þetta mikilvæga mark. Rétt á eftir komst Emiliano inn á teig vinstra megin. Líklega var hann ekki viss hvort hann ætti að skjóta eða gefa fyrir markið. Boltinn fór því framhjá þeim David og Dirk sem voru báðir dauðafríir. Sunderland fékk svo óvænt færi. Steed Malbranque fékk þá boltann frír vinstra megin í teignum en skot hans fór sem betur fer hátt yfir. Á 62. mínútu kom Djibril Cisse inn sem varamaður og fékk hann hlýjar móttökur hjá stuðningsmönnum Liverpool. Innkoma hans var þó það eina sem sást til Frakkans! Þremur mínútum seinna gerði Liverpool svo út um leikinn. Xabi Alonso átti þá skot utan teigs sem fór í varnarmann. Boltinn fór af honum upp í loftið og David náði að sparka honum aftur fyrir sig yfir til vinstri. Markmaður Sunderland henti sér á boltann og hugðist grípa hann en hann missti boltann fyrir fætur Yossi Benayoun og Ísraelinn þakkaði gott boð og renndi boltanum í autt markið frá markteig. Yosso átti stórleik og verðskuldaði sannarlega að skora!
Nú var aðeins spurning hvort Liverpool næði að skora fleiri mörk. Rétt á eftir munaði litlu þegar Albert skaut rétt yfir eftir harða sókn Liverpool. Leikurinn róaðist í kjölfarið og fátt gerðist þar til undir lokin. Á 87. mínútu skallaði varamaðurinn Luca Leiva beint á Marton í þokkalegu færi. Tveimur mínútum seinna fékk Ryan Babel, sem kom inn sem varamaður, boltann úti við hliðarlínu vinstra megin. Hann lék inn að miðju og átti hörkuskot frá vítateignum sem Marton varði mjög vel. Á lokamínútunni fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan teigs. Albert kom boltanum framhjá veggnum en Marton varði enn einu sinni. Hann hélt þó ekki boltanum sem hrökk út í teig en Dirk náði ekki að stýra boltanum í markið sem fór yfir. Öruggur og kærkominn sigur sem heldur liðinu okkar í toppbaráttunni.
Liverpool: Reina, Mascherano, Skrtel, Carragher, Insua, Benayoun (El Zhar 90. mín.), Gerrard (Babel 82. mín.), Alonso, Riera, Kuyt og Ngog (Lucas 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Hyypia og Aurelio.
Mörk Liverpool: David Ngog (52. mín.) og Yossi Benayoun (65. mín.).
Gult spjald: David Ngog.
Sunderland: Fulop, Ben-Haim, Ferdinand, Collins, McCartney, Malbranque (Edwards 81. mín.), Whitehead, Reid, Leadbitter (Cisse 62. mín.), Richardson og Jones (Murphy 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Gordon, Bardsley, Davenport og Healy.
Gult spjald: Dean Whitehead.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.587.
Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn hefur verið hættulegasti leikmaður Liverpool í síðustu leikjum. Hann hélt sínu striki í kvöld og notaði hvert tækifæri til að herja á vörn Sunderland. Hvað eftir annað reyndi hann að skapa færi eða að skora og hann átti það svo sannarlega skilið að skora í leiknum. Frábær leikur hjá Yossi.
Rafael Benítez: Eftir tapið um daginn þá var auðvitað mjög mikilvægt að ná þremur stigum og reyna að spila vel. Fyrri hálfleikur var erfiður og þeir fengu gott færi til að ná forystu en eftir það héldum við boltanum. Leikurinn opnaðist svo eftir að við skoruðum í síðari hálfleik. Við þurftum að vinna því við vorum í góðri stöðu fyrir leikinn við Middlesborough. Við vorum mjög vonsviknir eftir tapið og urðum að sýna mikinn skapstyrk til að vinna Sunderland. Leikmennirnir brugðust mjög vel við í þessum leik.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í þriðja sæti í deildinni á markahlutfalli á eftir Chelsea sem er í öðru sæti. - Manchester United er í fyrsta sæti. - David Ngog skoraði sitt annað mark á leiktíðinni. - Yossi Benayoun skoraði fjóra mark sitt á leiktíðinni. - Þetta var 15. mark hans fyrir Liverpool. - Lucas Leiva lék sinn 60. leik með Liverpool. Hann hefur skorað tvö mörk í þeim leikjum. - Þetta var 60. deildarsigur Liverpool gegn Sunderland.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!