| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Átta leikir án taps eru að baki og sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar er komið í höfn. Gæti verið verra og það var verra í upphafi ársins. Svo kom Kóngurinn og eftir það hefur allt verið í himnalagi. Reyndar vann Liverpool engan af fyrstu þremur leikjunum sem Kenny stjórnaði en það voru bara allir svo glaðir yfir því að hann var kominn á hliðarlínuna. Stundum breytist bara allt!

Þegar Liverpool og West Ham mættust á Anfield í lok nóvember þóttu stjórar liðanna valtir í sessi. Liverpool vann 3:0 og staða Roy Hodgson styrktist í bili. Hann átti samt eftir að missa sitt starf á undan Avram Grant og ekki áttu margir von á því. Avram ræður enn ríkjum á Upton park en Roy er orðinn frmakvæmdastjóri annars fallbaráttuliðs. Allt getur nú gerst!
 

                                                                    West Ham United v Liverpool

West Ham hefur skorað átta mörk í síðustu tveimur leikjum og allt í einu er sóknarleikurinn farinn að líta mjög vel út hjá þeim. Það mun hjálpa þeim í baráttunni við að halda sér í deildinni. Ég hef þó trú á að þessum leik muni ljúka með jafntefli. Liverpool á eftir að mæta á Upton Park með það í huga að tapa ekki. Kenny Dalglish, stjóri þeirra Rauðu, hefur stundum notað þrjá miðverði og ég held að hann muni gera það í þessum leik til að halda sókn West Ham í skefjum.

Spá: 1:1.

                                                                                   Til minnis!
 
- Liverpool hefur ekki verið ofar í deildinni á þessu keppnistímabili. Liðið er nú í sjötta sæti.

- Fyrri leik liðanna lauk með öruggum sigri Liverpool 3:0.

- Fernando Torres er ennþá markahæsti leikmaður Liverpool hingað til á leiktíðinni með níu mörk.

- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu átta leikjum.
 
- Í þeim leikjum hefur liðið aðeins fengið á sig eitt mark.

- Liverpool hefur unnið síðustu fjóra leiki gegn West Ham. 

                                                                                 Síðast!



Liverpool vann 3:2 í fjörugum og skemmtilegum leik. Fernando Torres skoraði tvö frábær mörk og Dirk Kuyt eitt. Þetta var einn af alltof fáum útisigrum Liverpool á síðasta keppnistímabili. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan