| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Þá er komið að endurkomu Roy Hodgson. Hann er ekki kominn til að taka við Liverpool á nýjan leik en á morgun mætir hann í fyrsta sinn til Anfield frá því hann vék úr starfi framkvæmdastjóra þar. Hann hefur reyndar tvívegis stjórnað West Bromwich Albion gegn Liverpool frá því hann fór en þetta verður í fyrsta sinn sem hann mætir til leiks á Anfield. Það verður áhugavert að sjá hvernig Roy verður tekið. Mín skoðun er sú að hann eigi skilið hlýjar móttökur því hvernig sem honum gekk þá er ekki annað hægt en að ætla að hann hafi ætlað vel!

Roy var ráðinn til Liverpool í byrjun júlí 2010 en á því hálfa ári sem hann stjórnaði náði hann aldrei að heilla stuðningsmenn Liverpool. Þeir leikmenn Liverpool sem hann vann með bera honum söguna vel og telja hann góðan framkvæmdastjóra. En af hverju gekk þá ekki betur hjá honum með Liverpool? Líklega kom margt til og eitt og annað sem Roy hafði ekki tök á að stjórna vann vissulega gegn honum. Kenny Dalglish stjórnar núna og þótt blásið hafi á móti síðustu vikurnar þá er ekki hægt að bera þá Kenny og Roy saman. Kenny þekkir Liverpool inn og út og veit hvernig stuðningsmenn hugsa. Kannski var það einmitt eitt af því sem Roy áttaði sig ekki nógu vel á. Framkvæmdastjóri Liverpool verður að vita hvernig stuðningsmennirnir hugsa. Kenny er með það á hreinu betur en nokkur annar!  

                                                            

                                                                          
                                                           Liverpool v West Bromwich Albion

Það eru allir kátir í herbúðum Liverpool öfugt við Everton. Hjá Liverpool hlakka menn til úrslitaleiksins í F.A. bikarnum og menn munu örugglega keppast við að sýna sig því allir vilja leika í úrslitaleiknum. Það lítur út fyrir að Andy Carroll sé að braggast sem er gott. Eins er gott að þeir Daniel Agger og Glen Johnson eru komnir eftir meiðsli. Mér fannst Luis Suarez alveg frábær og vera bestur í liðinu í undanúrslitum á móti Everton. Ef hann endar leiktíðina í svona formi mun liðið vinna tvo eða þrjá af síðustu deildarleikjunum.

Hjá Liverpool vilja menn enda deildina af krafti og verða fyrir ofan Everton. Mér finnst að lánið hafi aðeins farið að leika við liðið upp á síðkastið. Þetta sást síðasta hálftímann í jafnteflinu á móti Aston Villa þegar liðið skapaði fullt af færum. Svo hélt góður gangur áfram á móti Blackburn og Karamellunum en þeir tveir leikir unnust. Lánið var með og sigrar unnust. Það skiptir máli fyrir leikmennina þegar þeir finna að lánið sé með í för.

Roy Hodgson, stjóri West Brom, mætir auðvitað aftur á Anfield og hann vill örugglega sýna stuðningsmönnum Liverpool hversu gott starf hann er búinn að vinna hjá West Brom. Ég sé þó ekki annað í spilunum en að Liverpool vinni þægilegan sigur.

Spá: 2:0.

                                                                                   Til minnis!
 
- Liverpool hefur nú unnið þrjá deildarleiki á árinu.
 
- Liverpool er í áttunda sæti deildarinnar með 46 stig.

- Liverpool vann W.B.A. á útivelli í lok október. Charlie Adam skoraði úr víti áður en Andy Carroll bætti við marki. Liverpool var mun sterkari aðilinn í leiknum.

- Liverpool og W.B.A. hafa tvívegis mæst frá því Roy Hodgson frá Liverpool. Báðir leikirnir voru á heimavelli W.B.A.
 
- W.B.A. vann fyrri leikinn 2:1 og Liverpool þann seinni 0:2.

- Roy Hodgson var framkvæmdastjóri Liverpool í 191 dag. 

- W.B.A. er með tveimur stigum meira en á sama tíma í fyrra.

- Steven Gerrard hefur skorað 149 mörk fyrir Liverpool. 

- Luis Suarez hefur skorað flest mörk leikmanna Liverpool eða fjórtán talsins.

Hér má sjá leikmenn Liverpool æfa sig fyrir leikinn.

Hér má sjá Kenny Dalglish ræða um leikinn.


                                                                                       Síðast!



Liverpool vann 1:0 á Anfield Road og var það fyrsti deildarsigurinn sem liðið vann undir stjórn Roy Hodgson. Liverpool var mun sterkari aðilinn en aðeins eitt mark kom í síðsumarsólinni. Jose Reina hóf sóknina og Fernando Torres lauk henni nokkrum sekúndum síðar með því að skora með viðstöðulausu skoti fyrir framan Kop stúkuna.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan