| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Stórleikur í Musterinu. Margir telja að þegar Liverpool og Manchester United ganga á hólm skjálfi jörð og allt fari á annan endann! Því er víst ekki að neita að það er stórleikur þegar þessir grannar mætast. Sjálfum finnst mér leikir Liverpool og Everton vera aðalleikir leiktíðarinnar en rimmurnar milli Liverpool og Machester United flokkast að sjálfsögðu til stórleikja.

 

Það eru reyndar bara þrjú stig í boði fyrir sigur í þessum leikjum en sigur getur aukið sjálfstraust þeirra sem vinna til mikilla muna. Það mætti til dæmis segja að sigurmark Peter Crouch í FA bikarnum 2006 hafi gefið tóninn fyrir sigur í keppninni. Liverpool þarf virkilega á hressingu að halda eftir mótbyr í september. Liðið var á flugi fyrir landsleikjahléið í september eftir að hafa burstað Arsenal 4:0 en eftir hlé gekk ekkert. Nú er aftur komið að því að taka upp þráðinn eftir landsleikjahlé og vonandi snýst dæmið við. 



Liverpool lék reyndar býsna vel í flestum leikjunum og menn lögðu sig fram en það gekk jafn djöfullega að skora og að verja markið. Reyndar má segja að sóknin hafi frekar brugðist en varnarleikurinn því færi andstæðinga Liverpool voru ekki ýkja mörg miðað við færin sem sköpuðust við mörk andstæðinganna. Samt lá vörnin meira undir ámæli. Fórnarlamb þessa landsleikjahlés varð svo Sadio Mané og víst munar gríðarlega um hann. Ekki bara á morgun heldur næstu vikurnar.  Það verður þó ekki við því gert og aðrir verða að taka upp merkið.



Jürgen Klopp fékk drjúgan skammt af gagnrýni á sig í síðasta mánuði og telja sumir að Þjóðverjinn sé að verða kominn í þrot með aðferðir sínar og jafnvel vilja einhverjir að hann verði settur af. Slíkar hugrenningar eiga svo sem rétt á sér þar sem skoðanafrelsi ríkir og sannarlega er hann ekki yfir gagnrýni hafinn frekar en aðrir. En það má ekki missa trúna á það sem Jürgen er að gera. Þó nú séu tvö ár liðin frá því hann hóf verk sitt þá er mikið óunnið og hann verður að fá meiri tíma og vinnufrið! Hann sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri rétti maðurinn í starfið og ég tek undir það!



Manchester United hefur gengið mjög vel það sem af er leiktíðar. Liðið leiðir deildina með grönnum sínum og margir telja Jose Mourinho kominn með rétta blöndu leikmanna og leikaðferða. Nokkuð sem Jürgen á eftir að ná. En ég hef mikla trú á að það sé alveg að koma að því að Liverpool hrökkvi í gang og allt smelli saman. Hvaða staður og stund og mótherji er betri til að allt gangi upp en Anfield Road, um hádegi á morgun á móti Manchester United? Ekki nema þá ef verið væri að spila á móti Everton! Jürgen óskaði eftir hjálp þeirra krafta sem myndast á Anfield fyrir verkefnið og það er kraftur í loftinu eftir athöfnina í dag þegar Aldarstúkan fékk endurskírn og heitir nú Kenny Dalglish Stand, Kenny Dalglish stúkan. Þetta er að koma og Liverpool vinnur 3:1. Roberto Firmino, Emre Can og Mohamed Salah skora mörkin.  

YNWA!

Hér eru myndir sem voru teknar á æfingu Liverpool á Melwood í gær. 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan