| Heimir Eyvindarson

Liverpool komið áfram!


Liverpool vann Napoli 1-0 á Anfield í lokaleik C-riðils í Meistaradeildinni. Með sigrinum tryggði Liverpool sér 2. sæti riðlinum og farmiða í 16 liða úrslitin. Geggjað Evrópukvöld á Anfield. 

Jürgen Klopp stillti upp tiltölulega fyrirsjáanlegu liði. Matip var tekinn fram yfir Lovren í stað Gomez í miðverðinum og Klopp lagði sitt traust á Henderson, Milner og Wijnladum á miðjunni, frekar en að taka sjénsinn á nýju mönnunum. 

Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun. Meiriháttar Evrópustemning a Anfield og mikill kraftur í báðum liðum. Liverpool var betra liðið, meira með boltann og skapaði hættulegri færi, en Napoli voru þéttir og beittu góðum skyndisóknum. Eins og við var að búast. 

Liverpool fékk nokkur færi í fyrri hálfleiknum. Salah fór illa að ráði sínu þegar Robertson sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn Napoli. Fyrsta snertingin hjá Egyptanum minnti helst á Emile Heskey á góðum degi og Ospina gat andað léttar. Skömmu síðar átti hinn bakvörðurinn, Alexander-Arnold, flotta sendingu á kollinn á Milner, en gamla brýnið skallaði yfir úr góðu færi. 

Á 17. mínútu fékk Van Dijk gult spjald, sem þýðir að hann verður í banni í næsta leik. Það er frekar súrt að missa kónginn, en svona er þetta bara.

Á 22. mínútu skoraði Mané mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu, en á 34. mínútu var ekkert vesen þegar Salah sneri laglega á bæði Koulibaly og Ruiz og laumaði boltanum framhjá Ospina á snilldarlegan hátt. Frábært mark og allt snarvitlaust á Anfield.
Nokkrum mínútum síðar átti Alisson slaka sendingu fram sem endaði með góðu færi hjá gestunum, en Ruiz náði ekki að gera sér mat úr því. 

Staðan í hálfleik 1-0 og allt í nokkuð góðum málum. 

Seinni hálfleikur byrjaði með sömu látum og voru í gangi í fyrri hálfleiknum. Liverpool var allsráðandi fyrstu 25-30 mínúturnar og í raun magnað hvað Napoli var lítið með í leiknum framan af hálfleiknum. Síðustu 15 mínúturnar + 4 í uppbótartíma voru hinsvegar afskaplega taugatrekkjandi, en þá bakkaði Liverpool kannski aðeins of mikið.

Salah átti nokkra frábæra spretti. Ospina bjargaði tvisvar frábærlega þegar Salah komst í góð færi, sérstaklega á 74. mínútu þegar Salah komst einn innfyrir en Ospina kom fingrunum í boltann og bjargaði málunum. Liverpool vildi reyndar að ég held réttilega fá víti, en það var kannski ekki við miklu af búast af dómara leiksins. Fram að leiknum hafði hann dæmt 4 leiki með Liverpool, sem töpuðust allir.

Firmino átti ágætan skalla og Henderson gott skot en Ospina var vel á verði. Milner átti fínt skot rétt fram hjá líka. Þrjú bestu færi hálfleiksins átti svo Sadio Mané alveg skuldlaus og alveg ótrúlegt að hann skyldi ekki skora. 
Í blálokin hefði Napoli síðan getað þaggað rækilega niður í Anfield þegar Miliki komst í dauðafæri á markteig. Alisson kom hinsvegar vel út og varði frábærlega. Ótrúlega mikilvæg markvarsla. Maðurinn er hverrar milljónar virði, það er klárt mál. 

Frábært Evrópukvöld á Anfield og sæti í 16 liða úrslitunum tryggt. Liverpool var miklu betra liðið í leiknum, átti yfir 20 skot og alveg ótrúlegt að liðið skyldi bara skora eitt mark. Vörnin og markvarslan er hinsvegar orðin allt önnur en undanfarin ár þannig að eitt mark dugði. Sem er auðvitað hrikalega sætt.


Liverpool: Alisson, TAA (Lovren), Matip, Van Dijk, Robertson, Henderson, Milner (Fabinho), Wijnaldum, Firmino (Keita), Mané, Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Sturridge, Shaqiri, Origi.

Mark Liverpool: Mohamed Salah á 34. mínútu. 

Gul spjöld: Van Dijk, Robertson, Mané og Salah

Napoli:  Ospina, Maksimovic, Albiol, Koulibaly, Rui, Callejon, Allan, Hamsik, Ruiz, Mertens, Insigne. Ónotaðir varamenn: Karnezis, Hysaj, Ghoulam, Diawara, Zielinski, Ounas, Milik.

Gult spjald: Koulibaly

Maður leiksins: Það voru margir góðir í dag. Markvarslan í lokin hjá Alisson dugar ein og sér til að verðskulda heiðurinn, en það voru bara svo margir góðir. Mér fannst Robertson frábær og Van Dijk og Matip voru verulega sannfærandi í miðju varnarinnar. Miðjan var sterk og eiginlega bara allir góðir. Ég vel samt Mo Salah. Hann var á fullu allan leikinn, skapaði fullt af færum fyrir félaga sína og var alltaf hættulegur. Markið var síðan það sem gerði gæfumuninn (ásamt markvörslunni hjá Alisson). Mjög góð frammistaða hjá öllu liðinu og alger draumur að þurfa ekki að þvælast í Evrópudeildinni það sem eftir er tímabilsins. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan