| Sf. Gutt

Jafnt í Manchester


Englandsmeistarar síðustu þriggja ára skildu jafnir 1:1 í Manchester í dag. Liðin buðu upp á stórgóðan leik og sýndu að það er ekki tilviljun að þau eru meistarar Englands síðustu þrjú árin. 

Roberto Firmino, Sadio Mané, Mohamed Salah og Diogo Jota voru allir í byrjunarliðinu. Það mátti öllum ljóst vera að Englandsmeistararnir voru komnir til Manchester til að sækja sigur. Góðar fréttir voru staðfestar þegar Joël Matip tók stöðu í hjarta varnarinnar við hlið Joe Gomez. 

Liverpool byrjaði af krafti og Roberto Firmino komst inn í vítateiginn eftir nokkrar sekúndur en Ederson Moraes náði að trufla hann. Liverpool átti hættulegar sóknir á næstu mínútum og fékk svo víti eftir að Kyle Walker braut klaufalega á Sadio Mané. Mohamed Salah skoraði með öruggu skoti vinstra megin í markið. Liverpool komið yfir og aðeins 13 mínútur búnar. Liverpool hélt áfram á sömu braut og spilaði frábærlega. 

Heimamenn ógnuðu ekki fyrr en eftir rúman hálfan hálfleik. Kevin De Bruyne sendi fyrir frá hægri. Raheem Sterling fékk boltann óvaldaður vinstra megin í markteignum. Alisson Becker varði skot hans en boltinn skaust undir hann og í átt að markinu en Joël hreinsaði. 

Fimm mínútum eða svo seinna, á 31. mínútu, sendi Kevin fyrir. Boltinn fór á Gabrial Jesus sem sneri Trent Alexander-Arnold af sér og skoraði úr miðjum vítateignum. Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks fékk City víti. Kevin ógnaði enn og aftur hægra megin. Hann gaf fyrir markið. Boltinn fór í hendi Joe og dómarinn dæmdi víti eftir að hafa skoðað sjónvarpsskjáinn í óratíma. Kevin tók vítið, sendi Alisson í vitlaust horn en skaut boltanum sem betur fer framhjá vinstri stönginni.

Liverpool náði góðri sókn rétt á eftir. Trent fékk boltann inni í vítateignum eftir fallegt spil. Hann náði föstu skoti sem Ederson varði naumlega. Hann hélt ekki boltanum og Diogo hugðist koma honum í markið uppi við marklínuna en Ederson rétt náði boltanum á undan honum. Jafnt í hálfleik.

Liðin héldu áfram að spila stífan sóknarleik í síðari hálfleik. Heimamenn sóttu heldur meira en Liverpool gaf ekkert eftir. Það var fátt tíðinda hvað færi áhrærði og leiknum lauk án þess að fleiri mörk væru skoruð. Sanngjörn niðurstaða í stórgóðum leik. Verst var að Trent fór meiddur af velli. En ein meiðslin hjá Liverpool það sem af er leiktíðar.  

Mark Manchester City: Gabriel Jesus (31. mín.).

Gul spjöld: Raheem Sterling, Aymeric Laporte og Kyle Walker. 

Mark Liverpool: Mohamed Salah, víti, (13. mín.).

Gult spjald: Joël Matip.

Áhorfendur á Etihad: Engir. 

Maður leiksins: Georginio Wijnaldum. Hollendingurinn var stórgóður. Það fer svo sem ekki oft mikið fyrir honum en hann skilar sínu jafnan með sóma. Svo var nú eins og jafnan.

Jürgen Klopp: Liðin spiluðu af ótrúlegum krafti með það að markmiði að kveða hvort annað í kútinn og nýta eitthvað af þeim fáu færum sem myndu skapast. Mér fannst leikurinn vera í hæsta gæðaflokki. 

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði  tíunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur ekki náð sigri í fjórum af síðustu sjö leikjum sem liðið hefur náð forystu í. 

- Fyrir þessa sjö leiki hafði Liverpool unnið 35 leiki í röð eftir að hafa komist yfir.

- James Milner lék leik númer 750 á ferlinum. Þar af eru deildarleikirnir 550.

- Svo vildi til að þessi tímamótaleikur var á móti liði sem hann lék 203 leiki með. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan